Eldhressar aðalpersónur í The Affair; Cole, Alison, Noah og Helen.
Eldhressar aðalpersónur í The Affair; Cole, Alison, Noah og Helen. — Showtime
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar hér er komið sögu reis gamli handritshöfundurinn úr rekkju, ruddi íhlaupamanninum úr vegi og sullaði yfir okkur meiri eymd og volæði en nokkurn hefði getað órað fyrir.

Mikið er á unga menn lagt. Þetta fékk Anton nokkur, þeldökkur bandarískur námsmaður, að reyna þegar hann fyrir hreina tilviljun lenti á „ródtrippi“ með tveimur miðaldra hvítum karlmönnum í tilvistarkreppu um liðna helgi. Umgjörðin um trippið var drungadramað The Affair, sem Sjónvarp Símans hefur sýnt undanfarin misseri.

Ég sá á sínum tíma nokkra þætti af The Affair en gafst á endanum upp enda barlómurinn og eymdin algjör; persónunum er fyrirmunað að sjá nokkuð jákvætt við tilveruna. Þess utan hlýtur aðalsöguhetjan, rithöfundurinn og kennarinn Noah Solloway, að geta gert tilkall til þess að vera leiðinlegasta persóna sem sögur fara af í sjónvarpi. Og er þó af ýmsu að taka. Aðrar lykilpersónur eru lítið skárri.

Eftir langa og kærkomna hvíld datt ég óvart inn í þáttinn um liðna helgi og mér til ómældrar undrunar kvað við nýjan tón; það örlaði á húmor. Handritshöfundurinn hefur örugglega verið veikur og ær íhlaupamaður komist með puttana í söguþráðinn.

Alltént var þetta þríeyki, táningurinn Anton, hinn síspræki Noah Solloway og kviðmágur hans, Cole Lockhart, meinfyndið saman. Noah kennir Antoni og var á leið með hann að skoða einhvern háskóla þegar örlögin gripu inn í; fluginu þeirra var aflýst og þeir enduðu í jeppanum hans Coles sem var að hefja leit að horfinni fyrrverandi eiginkonu sinni, Alison að nafni, en hún er einnig fyrrverandi eiginkona Noah. Já, ég sagði ykkur það, þetta er hádrama.

Cole sá raunar langar leiðir í gegnum Noah; hann væri ekki þarna sem kennari drengsins. „Hvað er hann að gera hérna? Þú ert að sofa hjá móður hans!“ Auðvitað, eins og Noah er leiðinlegur nýtur hann fádæma kvenhylli.

Noah og Cole hafa ímugust hvor á öðrum, eins og gengur með kviðmága, og fyrir vikið var andrúmsloftið nokkuð þrúgandi í jeppanum. Anton karlinn reyndi eftir fremsta megni að létta samreiðarsveinum sínum lundina en það er einfaldlega ekki vel séð í The Affair. Fyrr birtast geimverur og rassálfar en léttlyndir menn á þeim vettvangi.

Nema hvað, púki hljóp í íhlaupahandritshöfundinn (skemmtilegt orð!) sem sendi þremenningana sem leið lá inn á lítið gistiheimili við þjóðveginn. Stúlkan í móttökunni starði á þá í forundran og þegar þeir báðu um tvö samliggjandi herbergi sá hún þann kost vænstan að kalla á föður sinn sem var í símanum inni í einhverju sem líktist einna helst kústaskáp. Faðirinn skannaði félagana frá hvirfli til ilja og sagði svo þvert nei. Sú sena var meinfyndin.

Eigi að síður fengu kapparnir inni á gistiheimilinu, þar sem hljóp á snærið hjá Antoni. Dóttirin í móttökunni vildi ólm hafa við hann kynmök, svo undir tók í sýslunni. Afar vandræðalegt augnablik fyrir kviðmágana í næsta herbergi. Faðirinn rann að lokum á hljóðið. Foxillur. Og þremenningarnir komust undan á harðakani. Það var líka fyndið.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Þegar hér er komið sögu reis gamli handritshöfundurinn úr rekkju, ruddi íhlaupamanninum úr vegi og sullaði yfir okkur meiri eymd og volæði en nokkurn hefði getað órað fyrir. Keyrði niður spéstigið. Heitir það ekki að bæta upp fyrir glataðan tíma?

Alison blessunin reyndist alla vega látin; hafði annaðhvort fyrirfarið sér eða verið myrt. Það skýrist væntanlega síðar. Og vonarglætan og spévísirinn í þættinum fylgdu henni í gröfina.