Birgir Imsland fæddist í Óðinsvéum í Danmörku 6. janúar 1984. Hann lést 27. júlí 2018.

Foreldrar Birgis eru Ómar Imsland, f. 1956, og Brynja Björg Bragadóttir, f. 1956, d. 2013. Stjúpmóðir hans er Hildur Björg Hrólfsdóttir. Birgir var annar í röðinni af fjórum bræðrum. Elstur er Ragnar, f. 1980, sonur hans og fyrrverandi eiginkonu, Ingu Stellu Logadóttur, er Ómar Logi, f. 2002. Þriðji bróðir Birgis var Gunnar Ölvir, f. 1986, d. 2001, og yngstur er Arnar, f. 1992. Sonur Arnars og sambýliskonu hans, Alexöndru Dísar Unudóttur, er Nóel Gunnar, fæddur 2017.

Fyrstu æviárin ólst Birgir upp hjá fjölskyldu sinni í Danmörku, þar sem hann hóf sína íþróttaiðkun með yngri flokkum Aab í Álaborg. Eftir heimkomuna ólst hann upp á Seltjarnarnesi og varð fljótlega mikill KR-ingur og lék bæði handbolta og fótbolta með yngri flokkum KR. Eftir skyldunám vann Birgir ýmis störf, aðallega í byggingariðnaði og ýmsum þjónustustörfum. Síðustu misserin vann hann sem ráðgjafi við umönnun barna og ungmenna með margþættan vanda og naut hann þar mikillar virðingar og trausts.

Útför Birgis fór fram frá Digraneskirkju 2. ágúst 2018.

Á fallegu sumarkvöldi lagði Birgir stjúpsonur minn sig til svefns eftir gott símtal við föður sinn og vaknaði ekki aftur. Síðastliðin ár hafði hann lifað blómatíma sinna fullorðinsára og hafði byggt sér sterkt, fallegt og gefandi líf. Birgir var að eðlisfari mikið sjarmatröll, hjartahlýr og umhyggjusamur maður með beitt skopskyn og góðar gáfur. Ungur var hann óvenju táp- og kraftmikill og efnilegur í íþróttum. Hann var harður af sér, ekki kvartgjarn, fljótur að hugsa og bregðast við. Stóð með þeim sem órétti voru beittir eða máttu sín lítils og sýndi kvölurum litla meðvirkni. Hann fyllti enda bílskúr fjölskyldunnar af þeim dýrum merkurinnar sem eitthvað amaði að, hvort sem það voru kettir eða lemstraðir sjófuglar og reyndi að koma þeim til heilsu. Það var traustleiki í eðlifari hans sem sást m.a. á því að hann laðaði að sér bæði börn og dýr og var hann mjög elskur að þeim.

Birgir var næstelstur af fjórum bræðrum. Þegar hann var nýorðinn 17 ára gamall varð fjölskyldan fyrir því áfalli að Gunnar Ölvir, fjórtán ára bróðir hans, dó eftir stutta baráttu við krabbamein. Andlát bróður hans hafði djúpstæð áhrif á hann og smám saman missti hann fótanna og fór ekki vel með sig í mörg ár. Rúmum áratug eftir andlát yngri bróður missti hann móður sína líka úr krabbameini. En eftir dvöl í Krísuvík og virkt líf með sporunum tólf komst hann aftur til sjálfs sín og fyrir þá gjöf var hann mjög þakklátur. Í framhaldi fékk hann draumastarfið sitt. Hann vann sem ráðgjafi á heimili fyrir börn og unglinga með margþættan vanda. Þar var hann mikils metinn. Þótti ósérhlífinn, kærleiksríkur, lausnamiðaður og nýtti reynslu sína á uppbyggilegan hátt með þjónustuþegunum og var þeim mikil fyrirmynd og vinur. Hann hlakkaði til hvers dags og skildi lítið í því að einhver væri tilbúinn til þess að borga honum laun fyrir það sem honum fannst skemmtilegast að gera. Af þakklæti fyrir það sem hann hafði gefið vinnufélögum sínum og þjónustuþegum stóð þessi glæsilegi hópur heiðursvörð í jarðarför Birgis. Fyrir þann hlýhug þökkum við fjölskyldan af alhug. Það er erfitt að fá ekki að sjá Birgi njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða, fjölskyldu, afkomendur og eldast í sátt, umvafinn elsku. Nú þegar haustrigningar hafa tekið við af votu sumri er þó gott að minnast nokkurs sem Birgir hafði stundum á orði. Hann hélt því fram að til væri tvenns konar fólk. Þeir sem blotnuðu í rigningu og þeir sem upplifðu hana með öllum skynfærum sínum. Með þessu vildi hann benda á að við ráðum ekki við neitt nema augnablikið og því er best að njóta þess og dvelja ekki við það sem aldrei verður.

Andlát Birgis bar brátt að, hann varð bráðkvaddur í svefni 27. ágúst síðastliðinn, en hann hafði átt við lungnaveiki að stríða í mörg ár. Á þessum tímamótum er eina leið okkar fram veginn, sú sem Birgir hefði kosið okkur. Vörðurnar á þeirri leið eru æðruleysi, kærleikur, þakklæti og von. Birgis er sárt saknað og við varðveitum dýrmætar minningar um hann með virðingu og þökk svo lengi sem við drögum andann.

Hildur Björg Hrólfsdóttir.