Tæknin er ólíkindatól. Á sumum sviðum fleygir henni fram, en á öðrum virðist hún standa í stað. Flugsamgöngur hafa til dæmis breyst mikið, en tæknin sjálf er sú sama og það tekur jafn langan tíma að komast milli staða nú og fyrir hálfri öld.

Tæknin er ólíkindatól. Á sumum sviðum fleygir henni fram, en á öðrum virðist hún standa í stað. Flugsamgöngur hafa til dæmis breyst mikið, en tæknin sjálf er sú sama og það tekur jafn langan tíma að komast milli staða nú og fyrir hálfri öld. Með því að flug með Concorde-þotum lagðist af hefur jafnvel orðið afturför.

Tölvutæknin breytist hins vegar nánast dag frá degi. Víkverji minnist þess að fyrir um aldarfjórðungi var hann með tölvu sem aðeins hafði diskadrif. Það hafði ákveðna annmarka í för með sér, sem hann ákvað að bæta úr með því að kaupa sér harðan disk. Fjárráðin voru takmörkuð og endaði hann eftir mikla umhugsun á því að kaupa sér 20 kílóbæta disk. Hann var hæstánægður með þessa viðbót, en nú hljómar þetta frekar hlægilega. Um þessar mundir er sjálfsagt að harður diskur sé eitt terabæt eða meira. Eitt terabæt er einn milljarður kílóbæta. Ekki nokkrum manni dytti í hug að kaupa sér harðan disk með tíu kílóbætum, hvað þá að það hvarfli að einhverjum að framleiða eða selja slíka vöru.

Á einu sviði stendur gagnageta þó nokkurn veginn í stað. Það er í þjóðskrá. Þar er enn takmarkað hvað nöfn mega vera margir stafir eða stafbil. Lengi vel mátti nafn ekki vera meira en 31 stafbil, en er nú komið í 44 stafbil. Því er borið við að tölvukerfi sem vinni með nöfn fólks geti ekki borið óendanlegan fjölda stafbila. Víkverji hefur reyndar enga skoðun á því hvort nöfn eigi að vera stutt eða löng en hann hefur enn enga haldbæra skýringu séð á hvernig á því standi á tímum nánast ótakmarkaðs vinnsluminnis og geymsluminnis og gervigreindar og algríms, hugbúnaðar sem getur geymt, farið yfir og greint allar skákir sem tefldar hafa verið eða stundað viðskipti á öllum helstu hlutabréfamörkuðum heims samtímis að tölvukerfi sem halda utan um jafn einfaldan hlut og mannanöfn skuli enn slíkum takmörkum háð.