Slagur Emil Barja kemur í veg fyrir að Viðar Ágústsson nái til boltans í gær á meðan Björn Kristjánsson fylgist með
Slagur Emil Barja kemur í veg fyrir að Viðar Ágústsson nái til boltans í gær á meðan Björn Kristjánsson fylgist með — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Íslandsmeistarar KR sýndu enn og aftur klærnar er liðið vann 93:86-heimasigur á bikarmeisturum Tindastóls í stórleik 5. umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi.

Í Vesturbænum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslandsmeistarar KR sýndu enn og aftur klærnar er liðið vann 93:86-heimasigur á bikarmeisturum Tindastóls í stórleik 5. umferðar Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Tindastóll vann afar sannfærandi sigur á KR í DHL-höllinni í Meistarakeppni KKÍ í upphafi tímabils og bjuggust margir við útisigri í gær. Fyrir leikinn var Tindastóll eina lið deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Auk þess voru KR-ingar búnir að vera nokkuð ósannfærandi á leiktíðinni til þessa. Í KR eru hins vegar meistarar og meira að segja margfaldir meistarar og það sást í gær. KR-ingar sýndu margar af sínum bestu hliðum og var frammistaðan í gær sú langbesta á tímabilinu til þessa. KR sýnir sparihliðarnar þegar tilefnið er stórt og sérstaklega Jón Arnór Stefánsson, sem var í miklu stuði. Þegar hann er í stuði vinnur KR oftar en ekki leiki. Þegar mest var undir var gefið á Jón og hann sá um rest og sá til þess að Tindastóll náði ekki að jafna á æsispennandi lokamínútum. Ég á erfitt með að ímynda mér jákvætt lýsingarorð um Jón sem ekki hefur verið notað áður. Þvílíkur maður.

Julian Boyd átti ágætan leik hjá KR, sérstaklega í fyrri hálfleik, og Björn Kristjánsson og Emil Barja skoruðu mikilvægar körfur. Það neikvæða við frammistöðu KR-inga eru aðeins sex stig af bekknum, en ég efast um að þeir séu að spá mikið í það eftir heilt yfir glæsilega frammistöðu.

Tindastóll spilaði ágætlega, en KR-ingar voru einfaldlega betri. Pétur Rúnar Birgisson átti góðan leik og Brynjar Þór Björnsson var fínn á gamla heimavellinum. Helgi Rafn Viggósson sýndi svo að hann á nóg eftir á tankinum með góðri innkomu af bekknum. Það reyndist dýrt fyrir Tindastól að Urald King fékk sína fjórðu villu í upphafi síðari hálfleiks og spilaði hann því nánast ekkert í þriðja leikhluta og kom ekki inn á fyrr en eftir nokkrar mínútur í fjórða og síðasta leikhlutanum. Fram að því spilaði hann afar vel, en hann náði ekki að bjarga leiknum fyrir Tindastól, þrátt fyrir hetjulega baráttu liðsins undir lokin. KR-ingar eru fimmfaldir Íslandsmeistarar og langt frá því að vera saddir.