Guðrún Jóhanna Vigfúsdóttir fæddist á Grund í Þorvaldsdal, Árskógshr., Eyj., 3. nóvember 1921. Foreldrar hennar voru Vigfús Kristjánsson, útvegsbóndi á Grund og síðar Litla-Árskógi, f. 1889, d. 1961, og Elísabet Jóhannsdóttir, húsfreyja, f. 1891, d.

Guðrún Jóhanna Vigfúsdóttir fæddist á Grund í Þorvaldsdal, Árskógshr., Eyj., 3. nóvember 1921. Foreldrar hennar voru Vigfús Kristjánsson, útvegsbóndi á Grund og síðar Litla-Árskógi, f. 1889, d. 1961, og Elísabet Jóhannsdóttir, húsfreyja, f. 1891, d. 1975.

Guðrún ólst upp á Litla-Árskógi, stundaði nám við Unglingaskóla Svarfdæla á Dalvík, sótti námskeið í orgelleik og vélprjóni á Akureyri og var við nám í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði 1940-1941. Hún stundaði nám við nýstofnaða vefnaðarkennaradeild Húsmæðraskólans á Hallormsstað 1943-1945 og útskrifaðist þaðan ásamt nöfnu sinni Bergþórsdóttur sem fyrsti vefnaðarkennari á Íslandi.

Haustið 1945 hóf Guðrún störf við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði sem vefnaðarkennari og kenndi við skólann í 43 ár.

Guðrún stofnaði Vefstofu Guðrúnar Vigfúsdóttur árið 1961 og starfrækti hana samhliða kennslunni í Húsmæðraskólanum í 26 ár.

Árið 1988 flutti Guðrún í Vogatungu 29 í Kópavogi þar sem hún setti upp vefstofu við heimili sitt og einbeitti sér að vefnaði messuhökla og tilheyrandi muna. Samhliða því leiðbeindi hún eldri borgurum í Kópavogi í vefnaði og myndvefnaði og árið 1996 fékk hún styrk bæjarlistamanns. Árið 1998 gaf Guðrún út bókina „Við vefstólinn: lifandi vefnaðarlist í máli og myndum í hálfa öld.“ Á Ísafirði tengdist Guðrún kirkjustarfi og var m.a. formaður Kirkjukvenfélagsins og síðar í sóknarnefnd Kópavogskirkju.

Árið 1976 var Guðrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslensks ullariðnaðar. Hún sýndi handofin verk á sýningum innanlands sem utan, m.a. hökla, veggteppi og glæsikjóla úr íslenskri ull.

Guðrún giftist Gísla Sveini Kristjánssyni árið 1950, íþróttakennara, f. 25.11. 1906, d. 22.10. 1978. Dóttir þeirra er Eyrún Ísfold, f. 1950, talmeinafræðingur.

Guðrún lést 9. febrúar 2015.