Undir það síðasta eru krakkarnir orðnir eins og þreytulegur starfsmaður í Ríkinu á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi, búnir á því og eiginlega komnir með ógeð á nammi. Láta sig þó hafa það enda ekki víst hvenær þeir komast í svona veislu næst.

Við eigum það til að kvarta undan erlendum áhrifum á allt mögulegt. Allt frá skiltum á ensku (í miðbæ þar sem varla sést Íslendingur) til siða sem við tökum frá öðrum þjóðum. Ég hef lengi verið pínu sammála en mér hefur hægt og rólega snúist hugur.

Helsta ástæðan er hrekkjavaka. Furðulegur siður, í síðustu viku október, sem við erum ekki einu sinni með á hreinu fyrir hvað stendur. Vitum það bara að börn (þessi sömu og við erum alltaf að vernda fyrir öllu hræðilegu) klæða sig upp í furðubúninga sem tákna verri hluti en við myndum nokkurn tímann sýna þeim. Sumir hneykslast á þessu og finnst við hafa gengið fyrir þjóðernislegan ætternisstapa. Þeim finnst allt sem felur í sér eitthvað villtara en að hengja öskupoka á einhvern vera einhverskonar „ameríkansering“.

Auðvitað er eitthvað klikkað að við skulum selja grasker í tonnavís í lok október. Grænmeti (eða er þetta kannski ávöxtur?) sem við sáum í fyrsta sinn fyrir nokkrum árum. Og auðvitað er það bilun að senda börn út í næfurþunnum kjólum og göllum þegar allra veðra er von. Og síðan hvenær þótti það alveg eðlilegt að senda börn út í myrkrið að banka upp á hjá ókunnugum til að sníkja nammi sem heilu seríurnar af Latabæ hafa sagt okkur að sé eitur? Það er bókstaflega allt rangt við þetta.

Þetta eru engin geimvísindi. Þetta er gaman. Það er bara nóg. Á mínu heimili er spenningur í margar vikur fyrir þennan dag og miklar vangaveltur um búninga. Hér hefur verið boðið upp á ýmislegt og okkur fannst fullkomlega eðlilegt þegar þá fimm ára dóttir okkar ákvað að vera „dauð ballerína“.

Þau eiga líka þennan dag í friði. Um leið og þau eru komin með einhverja tilfinningu fyrir umhverfinu eru foreldrar óþarfir. Næstyngsta dóttir mín svaraði spurningu minni um hvort ég ætti að koma með henni út með: „Það er bara krípí.“ Allt eðlilegt við það.

En það sem er merkilegast við þetta er óumbeðna mannfræðirannsóknin sem maður tekur þátt í. Dæmigerður strákur veður upp tröppurnar og spyr bara: Hvað má fá mörg? áður en hann dengir lúkunni í skálina. Dæmigerð stelpa býður jafnvel gott kvöld og spyr svo: Grikk eða gott? Tekur svo eitt og þakkar fyrir sig. Svo eru náttúrlega margar undantekningar og sumir strákarnir voru mjög kurteisir. Mér sýndist reglan vera nokkurn veginn kurteisi í öfugu hlutfalli við stærð hóps.

Annar hluti af rannsókninni er spenningurinn. Hann er skiljanlega mestur fyrst en svo dregur úr honum. Undir það síðasta eru krakkarnir orðnir eins og þreytulegur starfsmaður í Ríkinu á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi, búnir á því og eiginlega komnir með ógeð á nammi. Láta sig þó hafa það enda ekki víst hvenær þeir komast í svona veislu næst.

Mér er venjulega treyst fyrir nammiinnkaupum á þessu heimili og mælieingin sem ég notaði var „Shitload af nammi“. Það breytti þó ekki því að venju samkvæmt panikkaði eiginkona mín, rauk út í búð og keypti enn meira. Þannig að ef þið komið í heimsókn þá get ég lofað ykkur nammi með kaffinu.