[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ninu Raine. Íslensk þýðing: Þórarinn Eldjárn. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist: Úlfur Eldjárn. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson.

Eftir Ninu Raine. Íslensk þýðing: Þórarinn Eldjárn. Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist: Úlfur Eldjárn. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Snorri Engilbertsson, Stefán Hallur Stefánsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 26. október 2018.

Samþykki er fjórða leikrit breska leikskáldsins Ninu Raine sem sett er upp í heimalandi hennar á rúmum áratug. Það var frumsýnt við almennt góðar viðtökur í Breska þjóðleikhúsinu vorið 2017, aðeins nokkrum mánuðum áður en #metoo-byltingin hófst sem opnað hefur augu margra fyrir því rótgróna kynbundna ofbeldi sem alltof lengi hefur fengið að grassera. Út frá titli leikritsins þarf ekki að koma á óvart að nauðgun er hér í lykilhlutverki, en í breskum fjölmiðlum hefur höfundurinn lagt áherslu á að titilinn beri ekki að skilja einvörðungu í samhengi kynferðisofbeldis heldur einnig hjónabandsins þar sem einstaklingur geti til dæmis samþykkt framhjáhald makans án þess í raun að vera sáttur við hlutskipti sitt – en framhjáhald, svik, hefnd, réttlæti og fyrirgefning eru áberandi leiðarstef í verkinu.

Tilurð leikritsins má, að sögn höfundar, rekja til hennar eigin setu í kviðdómi árið 2005 þar sem hún varð vitni að því hvernig snúa má upp á sannleikann með lagarökum. Í rannsóknarvinnu hennar fyrir ritun leikritsins vakti meðferð breska dómskerfisins á þolendum nauðgana furðu hennar. Þar í landi flytur sækjandi málið gegn nauðgaranum, sem nýtur lögfræðiaðstoðar verjanda, en ólíkt því sem viðgengst hérlendis er þolandanum ekki úthlutað réttargæslumanni og fyrir vikið verður þolandinn aðeins vitni í eigin nauðgunarmáli.

Í meðförum Raine er ljóst að Gayle (Arndís Hrönn Egilsdóttir) fær ekki sanngjarna málsmeðferð og er í raun úthýst af réttarkerfinu. Þannig vinnur það gegn henni að hún var drukkin þegar árásin átti sér stað, hún henti nauðgaranum ekki út um leið og árásinni lauk, hún svaraði sms-i frá nauðgara sínum, nefndi ekki öll smáatriði við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu og var í meðferð hjá sálfræðingi vegna fyrra áfalls. Taka má undir undrun Gayle yfir að þessi atriði séu tínd til til að veikja framburð hennar meðan ekki má nefna ofbeldisfulla fortíð gerandans svo kviðdómendur heyri.

Lögmenn dómsmálsins sem áhorfendum er gefinn innsýn í, sækjandinn Tim (Stefán Hallur Stefánsson) og Edward eða Ed (Snorri Engilbertsson) verjandi gerandans, takast ekki aðeins á innan réttarsalsins – þar sem þeir líkja yfirheyrslum og gagnyfirheyrslum við kappleik – heldur einnig í persónulegum samskiptum utan vinnustaðarins. Í forgrunni verksins eru hjónin Ed og Kitty (Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem nýverið hafa eignast soninn Leo. Á yfirborðinu lítur allt vel út, en fljótlega kemur í ljós að Kitty er enn í sárum eftir framhjáhald Eds fimm árum fyrr. Þar geta þau að nokkru speglað sig í vinahjónunum og lögfræðingunum Jake (Hallgrímur Ólafsson) og Rakel (Birgitta Birgisdóttir), en Jake hefur um langt skeið haldið gegndarlaust framhjá Rakel og hættir því ekki fyrr en hún hefnir sín.

Ólíkt Rakel virðist Kitty ekki drifin áfram af hefndarþorsta. Það sem særir hana mest er að Ed virðist ómögulegt að setja sig í hennar spor og skilja hversu miklum sársauka framferði hans hafi valdið henni. Jafnt í vinnunni og prívatlífinu reynir Ed aðeins að sjá hlutina út frá vitsmunalegu sjónarmiði, enda er að hans mati mikilvægara að fólk sé með heilann á réttum stað en hjartað. Í örvæntingarfullri tilraun til að fá Ed til að skilja sig heldur Kitty framhjá með Tim, sem sjálfur er nýbyrjaður með leikkonunni Zöru (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) sem er í kapphlaupi við tímann um að eignast barn. Það flækir samskipti persónanna að Ed hefur sjálfur verið að gera hosur sínar grænar fyrir Zöru.

Áhugavert er að sjá hvernig Raine stillir lögmannsstarfinu upp andspænis leikarastarfinu, en bæði störf krefjast hæfileikans til að setja sig í spor annarra. Framan af verki telur Ed að hann þurfi ekki að hafa reynt einhvern hlut til að hafa á honum skoðun auk þess sem hann er sannfærður um að hann myndi taka því af yfirvegun ef haldið væri framhjá honum – enda eina rökrétta afstaðan. Þegar á reynir kemst Ed hins vegar að því að það er mun auðveldara að vera yfirvegaður þegar ekkert er í húfi fyrir manneskjuna persónulega. Ólíkt Kitty bregst Ed við framhjáhaldinu af mikilli heift og breytist í ofbeldismann þegar hann hótar að svipta hana syni þeirra, nauðgar henni, eyðileggur eigur hennar og sakar hana síðan um að vera geðveika. Athyglisvert er að það virðist mest fara í taugarnar á Ed að hann hafi verið kokkálaður af Tim. Þannig verður framhjáhaldið enn einn kappleikurinn milli karlmannanna tveggja þar sem konur eru bara viðfang og tæki.

Í viðtali við Morgunblaðið á frumsýningardag sagði Kristín Jóhannesdóttur, leikstjóri uppfærslunnar, snilld verksins felast í því að áhorfendur væru alltaf að færa sig á milli vogarskálanna til að halda með eða hafna málflutningi hvers og eins. Þannig sé það áhorfenda að vega og meta sekt og sakleysi, sannleika og lygi, rökhyggju og tilfinningar. Það komi síðan í þeirra hlut að ákveða hvort vegi þyngra; tilfinningar, sem byggjast á samkennd, eða lög réttarríkisins. Þessi túlkun leikstjórans endurspeglast skýrt í tilkomumikilli leikmynd Stígs Steinþórssonar sem vegur stöðugt salt í samspili við sviðsumferðina þegar leikurinn á sér stað á heimilum annars vegar Eds og Kittyar og hins vegar Tims, en nokkrar svipmyndir eru leiknar framan við leikmyndina.

Það eru engin nýmæli að tefla fram sem andstæðum skynsemi og tilfinningum, þar sem hið fyrra er samkvæmt hefðinni karllægt og hið seinna kvenlægt. En þegar Raine reynir að heimfæra þetta yfir á togstreitu laga og tilfinninga fatast henni flugið, því það er ekki ólöglegt að hætta að elska aðra manneskju en hins vegar refsivert að beita hana ofbeldi. Þegar verkið leggur síðan að jöfnu nei eiginkonu við því að vera nauðgað innan hjónabands og nei eiginmanns við því að þessi sama kona fari í fóstureyðingu þá hreinlega slitnar þráðurinn.

Í reynd býður leikrit Raine ekki upp á fyrrgreinda afstæðishyggju á vogarskálinni, því frá höfundarins hendi virðist ekkert fara á milli mála að Gayle var órétti beitt – ekkert frekar en það fer á milli mála að tæknilega nauðgar Ed eiginkonu sinni enda viðurkennir hann það í öðru orðinu þó að hann reyni í hinu að útskýra að það hafi ekki verið ásetningur hans. Eftir stendur að höfundur notar kynferðisofbeldið fyrst og síðast sem tæki til að skoða samskipti karla. Að öllu framansögðu er leikhópnum verulegur vandi á höndum að reyna að glæða leikritið, í annars vandaðri þýðingu Þórarins Eldjárn, lífi á íslensku sviði. Efniviðurinn gefur engum færi á að glansa, þó að allir skili sínu sómasamlega. Hallgrímur Ólafsson náði ágætum tökum á húmornum sem skrifaður er inn í hlutverk Jake. Birgitta Birgisdóttir fær úr litlu að moða sem Rakel og áhorfendum er það fullkomlega hulið hvers vegna hún hætti við að fara frá Jake.

Vigdís Hrefna Pálsdóttir hafði fína nærveru sem Zara og ekki við hana að sakast þó að hlutverkið leystist upp í seinni hlutanum. Hún á þó hrós skilið fyrir góða textameðferð. Stefáni Halli Stefánssyni tókst vel að miðla vandræðagangi Tims og innibyrgðri reiði. Snorri Engilbertsson miðlaði vel tilfinningalegum kulda Eds, en sennilega hefði farið betur á því að hafa sterkara taumhald á tilfinningaflóðinu í seinni hlutanum nema ætlunin hafi verið að undirstrika leikaraskap persónunnar. Kristín Þóra Haraldsdóttir býr yfir einstökum hæfileika til að miðla sársauka sem nýttist afar vel í erfiðu hlutverki Kittyar.

Arndís Hrönn Egilsdóttir fær það vandasama hlutverk að túlka Gayle. Plottsins vegna þarf hún að romsa upp úr sér mikilvægum upplýsingum fyrir áhorfendur, sem er ótrúverðugt að þolandi myndi gera undir þessum kringumstæðum. Samkvæmt forskrift höfundar leikur hún einnig skilnaðarlögfræðing eftir hlé, sem virkar skringilega í annars raunsæislegu verki. Leikstjórinn velur að vinna á móti raunsæinu með því að láta sviðsfólk leikhússins leiða persónur inn og út af sviðinu líkt og þær væru strengjabrúður. Ógerningur var hins vegar að lesa merkingu í það hvers vegna persónur voru bara stundum leiddar.

Skiljanlega er freistandi að sækja til útlanda leikrit sem vakið hefur töluverða athygli ytra. Mikilvægt er hins vegar að skoða menningar- og félagslegt samhengi til að átta sig á því hvort og hvernig tiltekið verk passar við íslenskan raunveruleika. Ólíkt breskum áhorfendum segir það þeim íslensku lítið um bakgrunn eða félagslega stöðu persóna hvort þær búa í Camden, Forest Hill eða Enfield og tala með skoskum hreim eða Yorkshire-hreim. Með sama hætti fara breskar lagatæknilegar samræður að mestu fyrir ofan garð og neðan. Í kynningu leikhússins á Samþykki mátti hæglega halda að hér væri á ferðinni spennandi verk sem talaði beint inn í samtímann á tímum #metoo. En þegar betur er að gáð reynist þetta vera klisjukennt og gamaldags verk um sjálfselska og kaldlynda karlmenn sem víla ekki fyrir sér að fórna hamingju og lífi kvenna sjálfum sér til framdráttar, enda er báðum nauðgunum verksins sópað undir teppið með stórundarlegum hætti sem er höfundi ekki til sóma.

Silja Björk Huldudóttir