Gisting Hótel Marina er ein þeirra eigna Icelandair Hotels sem til sölu eru.
Gisting Hótel Marina er ein þeirra eigna Icelandair Hotels sem til sölu eru. — Morgunblaðið/Ómar
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Formlegt söluferli á dótturfélagi Icelandair, Icelandair Hotels, er hafið, samkvæmt tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar.

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Formlegt söluferli á dótturfélagi Icelandair, Icelandair Hotels, er hafið, samkvæmt tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar. Ákvörðunin um að selja félagið og fasteignir þær sem tilheyra hótelrekstrinum, var upphaflega tekin í maí síðastliðnum, en síðan þá hefur fjöldi aðila sýnt fyrirtækinu áhuga.

Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair, segir í samtali við Morgunblaðið að margar fyrirspurnir hafi borist eftir upphaflega tilkynningu um söluna. „Það hafa margir haft samband, og mest aðilar utan úr heimi. Ég geri ráð fyrir að íslenskir aðilar muni væntanlega líka óska eftir gögnum.“

Höfum mikla trú á ferðaþjónustunni

Bogi segir að eignirnar sem um ræðir séu góðar. „Við höfum mikla trú á ferðaþjónustunni, þó umræðan hafi verið heldur neikvæð upp á síðkastið hér á landi. En af áhuganum að dæma þá sjá útlendingar meiri tækifæri í fyrirtækinu en innlendir aðilar. Við erum búin að byggja hér upp heils árs ferðaþjónustuland, og það er ekki öllum löndum sem hefur tekist það. Flugtengingar eru gríðarlega miklar, við Evrópu og Ameríku, og bráðum Asíu. Þannig að tækifærin eru svo sannarlega til staðar til að láta fyrirtækið vaxa og dafna, og það er það sem útlendingarnir sjá.“

Eru þetta atriðin sem helst er tæpt á í fjárfestakynningunni sem kynnt verður hugsanlegum kaupendum á næstunni?

„Já, ekki hvað síst, en svo eru þetta bara frábærar eignir. Þetta hótelfélag okkar hefur staðið að glæsilegri uppbyggingu á nýjum hótelum á mjög góðum stöðum hér í Reykjavík og úti á landi.“

Stefnt er að því að ljúka sölunni á fyrsta fjórðungi næsta árs, 2019. „Við segjum samt líka að við viljum frekar vanda okkur en flýta okkur,“ segir Bogi Nils.

Viðráðanlegri vöxtur

En í ljósi þess hvernig umræðan um íslenska ferðaþjónustu hefur þróast, hefði ekki verið betra að vera fyrr á ferðinni með söluna?

„Nei, við teljum svo ekki vera. Þeir erlendu aðilar sem eru að skoða þetta horfa til langs tíma. Það er áfram vöxtur í íslenskri ferðaþjónustu, og sem betur fer er hann ekki eins mikill og hann var. Hann er viðráðanlegri núna, og við teljum bara jákvætt að gera þetta á þessum tímapunkti.“

Í tilkynningunni kemur fram að söluferlið sé í umsjón Íslandsbanka og HVS í London. Þá segir að í fyrrnefndri fjárfestakynningu komi meðal annars fram að leigutekjur fasteigna muni nema 700 milljónum króna á þessu ári, og EBITDA hótelrekstrar muni verða 900 milljónir króna.

Á árinu 2018 hafa bæst þrjú ný hótel við rekstur Icelandair Hotels, en við það jókst framboð hótelherbergja félagsins um 197.

Markaðshlutdeild 17%

Að sögn Boga er markaðshlutdeild Icelandair Hotels 17% í höfuðborginni, en eitthvað lægri ef horft er á landið í heild.

Icelandair Hotels er með 23 hótel innan sinna vébanda, þar af 10 sem rekin eru undir nafni Hótels Eddu sem er sumarhótelakeðja. Á þessum hótelum eru 1.937 herbergi, 876 í Reykjavík, 450 á landsbyggðinni ásamt 611 herbergjum á fyrrnefndum Eddu-hótelum. Þá vinnur fyrirtækið einnig að opnun nýs hótels við Austurvöll í samstarfi við Hilton sem stefnt er að því að opna árið 2019.