Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði verður lokað næstu þrjá mánuðina, frá síðustu mánaðamótum til 1. febrúar, vegna lítillar aðsóknar yfir vetrarmánuðina. Síðan hótelið var opnað árið 2014 hefur því aldrei verið lokað yfir vetrarmánuðina fyrr en nú.

Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði verður lokað næstu þrjá mánuðina, frá síðustu mánaðamótum til 1. febrúar, vegna lítillar aðsóknar yfir vetrarmánuðina. Síðan hótelið var opnað árið 2014 hefur því aldrei verið lokað yfir vetrarmánuðina fyrr en nú.

„Það var ekki grundvöllur fyrir því að hafa opið á hótelinu á þessum tíma, en það hefur verið mínusrekstur yfir þessa tilteknu vetrarmánuði,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Fosshótel Austfirðir er starfrækt í fjórum byggingum við Hafnargötuna en byggingarnar hafa verið endurgerðar í samvinnu við Minjavernd og eru þekktar sem frönsku húsin. Þekktasta húsið er bygging Franska spítalans sem var reist árið 1903 og var í notkun til ársins 1939.

Á Fosshótel Hellnum er ávallt lokað á veturna en Fosshótel Vestfirðir verður lokað í vetur annað árið í röð. Davíð segir að reksturinn sé strembnari yfir vetrarmánuðina á landsbyggðinni. „Nýtingin á þessu svæði er sú sama og í fyrra yfir sömu mánuðina. Almennt séð hefur aðsóknin ekki dregist mikið saman, okkur hefur tekist að halda sömu nýtingu milli ára á þessum slóðum, en á landsbyggðinni, s.s. á Austfjörðum, Vestfjörðum og á Norðurlandi, hefur aðsóknin minnkað á veturna,“ segir Davíð. veronika@mbl.is