[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég held að það sé alveg ljóst að þetta tímabil var framar vonum. Síðustu tvö tímabil á undan hafði liðið endað í 5.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég held að það sé alveg ljóst að þetta tímabil var framar vonum. Síðustu tvö tímabil á undan hafði liðið endað í 5. sæti, liðið er tiltölulega ungt, og fyrsta markmiðið var nú bara að koma því í Evrópukeppni. Þegar komið var fram í mitt mót sáum við að það var möguleiki á að gera atlögu að titlinum. Það er frábært að hafa náð því að vinna hann og skemmtilegt eins og alltaf.“

Þetta segir Heimir Guðjónsson sem eftir að hafa unnið fimm Íslandsmeistaratitla sem þjálfari FH tókst að vinna færeyska meistaratitilinn með HB í fyrstu tilraun og var í gærkvöld kjörinn þjálfari ársins á lokahófinu í Færeyjum. 3:0-tap í fyrsta leik gegn KÍ í mars var fall sem reyndist fararheill því HB tapaði aðeins tveimur af 27 deildarleikjum og endaði á að setja stigamet í færeysku deildinni með því að fá 73 stig.

Heimir unir hag sínum afar vel í Færeyjum og mun stýra HB áfram á næsta ári, þegar liðið leikur í forkeppni Meistaradeildar Evrópu:

„Þetta er mjög skemmtilegur klúbbur, þó að hann sé minni en maður var vanur. Það er frábær samstaða hérna, margir sjálfboðaliðar sem koma að starfinu og eru alltaf tilbúnir að hjálpa. Hérna er góð aðstaða, völlurinn flottur og stuðningsmennirnir hafa verið frábærir. En svo veit maður aldrei hvað gerist ef við lendum í mótlæti. Á næsta tímabili vilja allir vinna okkur sem meistara, við erum þegar byrjaðir að undirbúa það tímabil og eins og ég hef sagt áður er erfiðara að verja titilinn en vinna hann,“ segir Heimir, og utan vallar kann hann einnig vel við sig:

„Það er virkilega gott að vera hérna, þægilegt og hjálpsamt fólk, og þetta er ekkert ósvipað því að vera bara á Íslandi. Þórshöfn er svipuð að stærð og Akureyri,“ segir Heimir sem er smám saman að ná tökum á færeyskunni. „Ég tala bara ensku á öllum fundum og þegar ég ræði einslega við leikmenn, enda tala þeir allir góða ensku, en ég er allur að koma til í færeyskunni og farinn að skilja hana. Kannski get ég einhvern tímann á næsta ári verið með stuttan fund á færeysku,“ segir hann hlæjandi.

Æfðu meira en áður þekktist og uppskeran líkt og hjá FH

Eitt af því sem Heimir breytti hjá HB var að hann bætti við morgunæfingum og jógaæfingum hjá leikmönnum.

„Ég jók æfingaálagið töluvert og fróðir menn hafa sagt mér að það hafi ekki áður verið æft svona mikið í félaginu, enda vita menn að ég er æfingaóður,“ segir Heimir og hlær, en vel var tekið í áform hans:

„Leikmennirnir og fólkið í kringum liðið var bara svo hungrað í árangur eftir mögur ár á undan, og leikmennirnir eiga heiður skilinn fyrir það að vilja fara í gegnum þessar breytingar og leggja hart að sér til þess að uppskera. Það voru ekki margir sem kvörtuðu, enda kvarta menn ekki þegar vel gengur og þeir sjá að það sem þeir gera virkar. Ég tel að HB hafi á þessu tímabili verið í besta forminu af liðunum í deildinni, ekkert ósvipað því sem var upp á teningnum hjá FH á sínum tíma þar sem liðið vann oft leikina á síðustu 15 mínútunum. Menn þurfa að vera í formi til að spila þessa íþrótt – þetta er hlaupaleikur,“ segir Heimir og hlær létt.

Brynjar stóð sig feikilega vel á miðjunni

Heimir fékk til sín tvo íslenska leikmenn, Brynjar Hlöðversson, fyrrverandi fyrirliða Leiknis R., og Grétar Snæ Gunnarsson sem kom að láni frá FH en lék með HK 2017. Brynjar er einn þriggja miðjumanna sem tilnefndir voru sem besti miðjumaður tímabilsins.

„Brynjar hefur staðið sig feikilega vel eins og tilnefningin gefur til kynna. Liðið vantaði leikmann eins og hann. Hann spilar aftast á miðjunni, er sterkur varnarlega og mikill liðsheildarmaður sem er liðinu mikilvægur innan vallar sem utan. Það er verið að reyna að semja við hann núna og vonandi gengur það eftir. Grétar kom seinna inn til okkar, í júní, og stóð sig líka vel. Hann er mjög góður fótboltamaður en ennþá ungur og þurfti tíma til að aðlagast, en hæfileikarnir eru fyrir hendi og ef hann leggur hart að sér verður hann góður,“ segir Heimir. Hann kveðst ekki kominn í viðræður við fleiri íslenska leikmenn fyrir næsta tímabil:

„Ekki eins og staðan er í dag en ég reikna með því að við reynum að styrkja liðið og þá er fínt að athuga hvort það eru ekki einhverjir klárir frá Íslandi, því það er margt sameiginlegt með færeyskum fótboltamönnum og íslenskum.“

HB um miðja Pepsi-deild?

Færeyska úrvalsdeildin er lægra skrifuð en sú íslenska, en hvernig stæði HB gegn íslenskum liðum?

„Ég held að HB gæti, eins og staðan er í dag, verið að spila í Pepsi-deildinni en liðið ætti litla möguleika í efstu fjögur liðin. Ef allt gengi vel væri liðið kannski um miðja deild. Það er hins vegar mikill uppgangur í fótboltanum í Færeyjum. Munurinn á yngri leikmönnum, á aldrinum 18-22, hérna og á Íslandi er ekki mikill þegar kemur að tæknilegri getu. Aðalmunurinn felst í líkamlegri þjálfun.“

„Grasmaður“ hugsar sig um

Með alla sína reynslu og sigurformúlur í farteskinu hefur Heimir getað miðlað ýmsu áfram hjá sínu nýja félagi en þegar talið berst að því hvort Íslendingar geti lært eitthvað af Færeyingum hvað fótboltann snertir nefnir Heimir sérstaklega að tímabilið í Færeyjum nái yfir átta mánuði og telji 27 umferðir:

„Ég hef aldrei verið mikill gervigrasmaður en eftir að ég kom hingað, þar sem öll liðin spila á gervigrasi, fékk það mann aðeins til að hugsa þetta betur. Mótið hérna byrjaði 11. mars og það er spilað fram í síðustu helgina í október. Með því að hafa gervigrasvelli er hægt að lengja tímabilið, spila 27 umferðir, og mér finnst það svolítið skemmtilegt. Á Íslandi er verið að spila á einhverjum undirbúningsmótum yfir veturinn en ég kom hingað 8. janúar, við gátum spilað einhverja fimm æfingaleiki og svo bara byrjaði mótið. Undirbúningstímabilið er því allt öðruvísi og það var líka krefjandi fyrir mig. En hvað þetta varðar tel ég að við getum lært ýmislegt. Ef öll liðin í Pepsi-deildinni fara á gervigras, eins og mér sýnist nú stefna í, ætti að vera hægt að fjölga leikjunum og fækka öllum þessum æfingaleikjum sem liðin spila.“