Berufjörður Þjónustubátur Fiskeldis Austfjarða við sjókvíar fyrirtækisins.
Berufjörður Þjónustubátur Fiskeldis Austfjarða við sjókvíar fyrirtækisins. — Ljósmynd/Fiskeldi Austfjarða
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Laxinn hjá Fiskeldi Austfjarða í Berufirði hefur vaxið vel í sumar og haust.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Laxinn hjá Fiskeldi Austfjarða í Berufirði hefur vaxið vel í sumar og haust. Slátrun hófst í gær eftir hausthlé, tveimur mánuðum fyrr en á síðasta ári, enda er laxinn orðinn 6,2 kg að meðaltali eftir aðeins 16 mánaða eldi í sjókvíum. Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, segir að aldrei áður hafi náðst jafn góður árangur í laxeldi á Austfjörðum.

Guðmundur segir að vaxtarskilyrði hafi verið góð, vegna góðrar tíðar. Sumarið hafi verið einstaklega gott og ekki hafi gert óveður í haust eins og stundum áður. Þá segir hjálpi góður tækjabúnaður til við að auka vöxt fisksins. Fiskeldi Austfjarða hafi til dæmis fengið nýtt myndavélakerfi í febrúar. Með því sé hægt að fylgjast nákvæmlega með því hvernig fiskurinn tekur fóður, hvort sem hann er ofarlega eða neðarlega í sjókvíunum. Það hjálpi til við að hafa fóðrunina nákvæma.

Laxinn frá Fiskeldi Austfjarða er vottaður af AquaGap og á aðgang að einni virtustu matvörukeðju Bandaríkjanna. Guðmundur segir að gengið sé að lagast og því fáist gott verð fyrir afurðirnar. „Laxinn okkar fær eingöngu hágæða fóður sem búið er til úr náttúrulegum hráefnum. Við fylgjum ströngustu stöðlum um búnað og öryggi. Ekki hefur orðið vart við lús á laxinum eða sjúkdóma og laxinn hefur enga meðhöndlun fengið við slíku fyrir slátrun. Ástand sjávar og botns við kvíar hefur verið vaktað frá því fyrir útsetningu seiða og á hámarks álagi og niðurstöðurnar sýna að sjálfbærni er tryggð,“ segir Guðmundur.

Nýjasta tækni í laxavinnslu

Unnið hefur verið hörðum höndum við breytingar á Búlandstindi á Djúpavogi í eldishléinu en þar eru afurðirnar unnar. Sett hafa verið upp ný tæki. Notuð er nýjasta tækni í laxavinnslu, meðal annars róbótar og ofurkæling til að tryggja gæði og gott vinnuumhverfi starfsfólks. Afkastageta vinnslunnar eykst við þetta úr 30 tonnum á sólarhring í 100 tonn. Afköst á heilu ári geta því orðið um 22 þúsund tonn.

Guðmundur segir að vinnslan sé að komast í gang eftir breytingar og hún sé orðin fyllilega sambærileg og samkeppnishæf við álíka laxavinnslur í Noregi. Búlandstindur er í eigu heimamanna í Ósnesi og Laxa fiskeldis, auk Fiskeldis Austfjarða. Þar verður unninn fiskur frá báðum laxeldisfyrirtækjunum auk þess sem Búlandstindur gerir út og vinnur þorsk. Þar eru um 50 starfsmenn.

Fiskurinn frá Fiskeldi Austfjarða er síðan flakaður að miklu leyti hjá Eðalfiski í Borgarnesi og fluttur með flugi frá Keflavíkurflugvelli til áfangastaða flugfélaganna um öll Bandaríkin. Afurðir fara raunar alla leið til Asíu. Lax er einnig fluttur með skipum frá Austfjarðahöfnum til Evrópu. Þrjú skipafélög eru með vikulegar áætlanaferðir þangað og hefur Guðmundur hug á að nýta alla möguleika til að þjóna markaðnum.

Ekkert gagn að hindrunum

Guðmundur gerir sér vonir um að geta hafið útflutning til Rússlands að nýju en Færeyingar hafa setið einir að þeim markaði. „Er ekki kominn tími á þessar viðskiptahindranir? Þær hafa ekkert gagn gert og mér finnst að menn ættu að setjast niður og leysa þetta mál,“ segir hann.

Kostnaður við umbúðir er tvöfalt meiri hér á landi en í samkeppnislöndum. Guðmundur vonast til að með auknu eldi verði hægt að hefja framleiðslu á umbúðum á Austfjörðum. Hann segir þó ekki alveg komið að því.