[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Leikmenn liðanna í Olísdeild karla taka upp þráðinn á morgun eftir nærri hálfs mánaðar hlé frá keppni vegna þátttöku íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins 2020.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Leikmenn liðanna í Olísdeild karla taka upp þráðinn á morgun eftir nærri hálfs mánaðar hlé frá keppni vegna þátttöku íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins 2020. Að vísu var einn leikur á fimmtudagskvöldið. Um var að ræða eftirlegukind úr 5. umferð, viðureign ÍR og FH, sem ákveðið var að geyma á fjalli vegna þátttöku FH-inga í EHF-keppninni um líkt leyti og leikir umferðarinnar fóru fram um miðjan október.

Skemmst er að segja frá viðureign ÍR og FH að því miður fyrir ÍR-inga þá tókst þeim ekki að ná sér á strik. Frekar hallaði undan fæti þegar Sveinn Andri Sveinsson, leikstjórnandinn þeirra efnilegi, meiddist í leiknum. Bergvin Þór Gíslason tognaði í aftanverðum lærisvöðva á æfingu á dögunum og verður vart með á næstunni. Án Bergvins og Sveins Andra eru skörð höggvin í sóknarleik ÍR-liðsins sem erfitt gæti reynst að fylla upp í fyrir viðureignina við Hauka í Austurbergi á mánudagskvöld.

ÍR-ingar eru í mesta basli og staða liðsins í tíunda og þriðja neðsta sæti er vaflaust undir væntingum þeirra. Þeir hafa farið illa að ráði sínu í nokkrum leikjum, m.a. gegn KA í sjöttu umferð þegar þeir glopruðu vænlegri stöðu niður í jafntefli.

Toppslagur að Varmá

FH-ingar sækja Aftureldingu heim að Varmá annað kvöld klukkan 20 í einum af fjórum leikjum sjöundu umferðar sem fara fram þann daginn. Um sannkallaðan toppslag er að ræða þótt ekki tróni liðin endilega í efsta sæti deildarinnar um þessar mundir. Mosfellingar hafa leikið vel á leiktíðinni, ef undan er skilin viðureignin við Akureyri. Elvar Ásgeirsson hefur farið á kostum í sóknarleiknum ásamt fleirum s.s. Tuma Steini Rúnarssyni. Arnór Freyr Stefánsson hefur verið öflugur í markinu og vaflaust naga forráðamenn einhverra liða deildarinnar sig í handarbökin fyrir að hafa ekki munað eftir Arnóri Frey þegar þeir voru að leggja á ráðin fyrir það keppnistímabil sem nú stendur yfir.

Þrátt fyrir talsverðar breytingar hafa FH-ingar nánast haldið áfram þar sem frá var horfið á síðasta keppnistímabili, þ.e. í toppbaráttu með eitt best leikandi lið landsins og agað sem líklegt til afreka. Ásbjörn Friðriksson ber sóknarleikinn uppi og er sem fyrr einn allra besti leikmaður deildarinnar.

Umferðin hefst á morgun með tveimur leikjum klukkan 16.

Annarsvegar mætast þá Grótta og Akureyri í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi og hinsvegar mætir Stefán Árnason á sinn gamla heimavöll á Selfossi með lærisveina sína í KA. Erfitt er að sjá fyrir sér að KA menn leggi stein í götu Selfoss-liðsins sem hefur unnið á síðustu vikum ÍBV, Val og FH auk sigurs á liðinu sem trónir á toppi A-deildarinnar í Slóveníu. En hver veit hvað Stefán og Heimir Örn Árnason töfra fram úr erminni í Hleðsluhöllinni.

Fjögurra stiga leikur

Viðureign Gróttu og Akureyrar verður athyglisverð. Segja má að um fjögurra stiga leik sé að ræða fyrir bæði lið. Grótta sótti frækinn sigur í greipar KA-manna fyrir norðan fyrir nokkru en hvers eru leikmenn liðsins megnugir gegn Akureyrarliðinu sem þarf svo mjög á sigri að halda til að lyfta sé upp úr kjallara deildarinnar og upp á fyrstu hæð?

Stjarnan fær Fram í heimsókn í TM-höllina í Mýrinni í Garðabæ klukkan 19.30 annað kvöld. Stjörnuliðið hefur verið heillum horfið til þessa og aðeins unnið einn leik, gegn KA og það var líka stórsigur. Ef Stjarnan vinnur ekki Fram á morgun hallar enn undan fæti hjá Garðabæjarliðinu sem gæti þá setið eitt eftir í neðsta sæti.

Fram-liðið er hið mesta ólíkindatól. Það gæti tekið upp á því að vinna öruggan sigur á Stjörnunni en eins gæti allt farið í handaskolum.

Umferðinni lýkur á mánudaginn með tveimur leikjum. Valsmenn sækja Eyjamenn heim klukkan 18 og ÍR fær Hauka í heimsókn, eins og áður er getið. Valsmenn hafa tapað tveimur leikjum í röð. Eyjamenn hafa sótt í sig veðrið svo við verðum að vona að fært verði með Herjólfi til Heimaeyjar á mánudaginn. Væntanlega mun sjóða á keipum í íþróttamiðstöðinni þegar leikmenn setjast undir árar. Tapliðið gæti stimplað sig út úr toppbaráttunni í bili með tapi.