Hættir Knut Arild Hareide hyggst láta af störfum sem flokksformaður.
Hættir Knut Arild Hareide hyggst láta af störfum sem flokksformaður.
Knut Arild Hareide, leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins í Noregi, beið ósigur á landsfundi flokksins í gær þegar tillaga hans um að hætta stuðningi við minnihlutastjórn Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Frjálslynda flokksins var felld.

Knut Arild Hareide, leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins í Noregi, beið ósigur á landsfundi flokksins í gær þegar tillaga hans um að hætta stuðningi við minnihlutastjórn Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Frjálslynda flokksins var felld.

Tillaga um að Kristilegi þjóðarflokkurinn hæfi viðræður um að hann gengi í stjórnina var samþykkt með 98 atkvæðum á landsfundinum. 90 þingmenn studdu tillögu Hareides um að flokkurinn hætti að styðja hægristjórnina og myndaði nýja stjórn með Verkamannaflokknum og Miðflokknum. Tveir landsfundarmenn skiluðu auðu, að sögn fréttavefjar norska ríkisútvarpsins.

Knut Arild Hareide sagði í ræðu á landsfundinum fyrir atkvæðagreiðsluna að hann hygðist segja af sér sem leiðtogi flokksins ef tillaga hans yrði felld. Hann hyggst víkja fyrir nýjum leiðtoga þegar viðræðunum við stjórnarflokkana þrjá lýkur.

Olaug Vervik Bollestad, fyrsti varaformaður flokksins, og Kjell Ingolf Ropstadt, annar varaformaður hans, höfðu lagst gegn tillögu leiðtogans. Hareide fór þó lofsamlegum orðum um framgöngu þeirra í deilunni í tilfinningaþrunginni ræðu sem hann flutti þegar niðurstaðan lá fyrir.

Stjórn flokkanna þriggja er undir forystu Ernu Solberg forsætisráðherra og var mynduð eftir þingkosningar í fyrra. Kristilegi þjóðarflokkurinn fékk þá 4,2% atkvæða og átta þingsæti af 169.