Gunnar Þorgeirsson
Gunnar Þorgeirsson
Bændablaðið fjallar ýtarlega um þriðja orkupakka ESB í nýjasta tölublaði sínu og ræðir þar meðal annars við formann Sambands garðyrkjubænda, Gunnar Þorgeirsson.

Bændablaðið fjallar ýtarlega um þriðja orkupakka ESB í nýjasta tölublaði sínu og ræðir þar meðal annars við formann Sambands garðyrkjubænda, Gunnar Þorgeirsson.

Gunnar segir málið grafalvarlegt: „Ef Íslendingar ætla ekki að standa vörð um eigið sjálfstæði þá veit ég ekki á hvaða vegferð menn eru í þessum málum. Þetta er skelfileg staða og verst að hugsa til þess að íslenskir stjórnmálamenn virðast ekki skilja um hvað málið snýst og ég efast um að þeir hafi lesið sér til um það.“

Vonandi er það rétt hjá Gunnari að stjórnmálamenn hafi ekki lesið sér til um málið því að úr slíku má bæta.

En stöðu garðyrkjubænda er öllu erfiðara að bæta ef þriðji orkupakkinn verður tekinn upp því að Gunnar segir „borðleggjandi að íslensk garðyrkja mun leggjast af í þeirri mynd sem hún er nú“ verði af innleiðingu.

Hann bætir við: „Ef það gerist er ólíklegt að það borgi sig yfirhöfuð að framleiða grænmeti yfir vetrartímann á Íslandi. Eins og staðan er í dag þá eru menn að berjast í bökkum svo ekki lagast það ef kostnaður hækkar vegna aðgerða stjórnmálamanna.“

Hvaða hagsmunum væri verið að þjóna með því að taka upp þriðja orkupakkann og hækka þar með raforkuverð hér á landi? Það hefur ekki verið upplýst.