Birgi Pálsson, vélstjóri frá Stóruvöllum í Bárðardal, fæddist 1. desember 1939. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 19. október 2018.

Foreldrar hans voru Páll Sveinsson frá Stórutungu, f. 24.12. 1911, d. 15.6. 1994, og Sigríður Jónsdóttir frá Stóruvöllum, f. 1.1. 1920, d. 2.11. 2005. Systkini Birgis eru: Geirþrúður, f. 8.5. 1941, og Sveinn, f. 17.5. 1953.

Birgir giftist 1. janúar 1961 Sigurbjörgu Ólafsdóttur frá Odda í Vestmannaeyjum, fædd 29. maí 1943, hún lést 9. júní 2017. Foreldrar hennar voru Þorsteina Sigurbjörg Ólafsdóttir, húsmóðir frá Oddhóli í Vestmannaeyjum, f. 4. september 1920, d. 15. nóvember 2012, og Ólafur Árnason, olíubílstjóri frá Odda í Vestmannaeyjum, f. 31. júlí 1917, d. 26. febrúar 1997.

Börn þeirra eru: 1) Guðbjörg Sigurveig, f. 22.7. 1958, sambýlismaður hennar er Guðmundur G. Norðdahl. 2) Sævar, f. 31.7. 1965, sambýliskona hans er Gerður Sævarsdóttir. 3) Brynja, f. 7.3. 1968, eiginmaður hennar er Bjarni Kristinsson. 4) Árni, f. 6.3. 1972, eiginkona hans er Ásta Hólm Birgisdóttir. 5) Sigurbjörg, f. 13.9. 1981. Barnabörn þeirra eru 19 og barnabarnabörnin fimm.

Útförin fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 3. nóvember 2018, klukkan 14.

Elsku pabbi,

Margt er það og margt er það

sem minningarnar vekur,

og þær eru það eina

sem enginn frá mér tekur.

(Davíð Stefánsson)

Mig óraði ekki fyrir því, elsku pabbi minn, þegar ég kvaddi þig á spítalanum aðfaranótt 16. október að það yrði okkar síðasta samtal.

Strax morguninn eftir áttaði ég mig á því í hvað stefndi. Það er erfitt að horfa til þess að þú sért nú farinn, þú, þessi yndislegi maður sem mér þótti svo vænt um. Þú varst alltaf reiðubúinn að gera allt fyrir mig, það varst þú sem kenndir mér að þekkja stafina, það varst þú sem kenndir mér að reikna og þú kenndir mér líka margt annað sem mun nýtast mér í lífinu.

Ósjaldan fórum við saman í bíltúr og þú þvældist með mig hingað og þangað, þar sem það var alltaf nóg að gera.

Fáeinar línur á blaði segja svo lítið frá þeim minningum sem eftir sitja, og er erfitt að lýsa manni eins og pabba, sem fyrir mér var stórbrotinn persónuleiki.

Elsku pabbi, þín verður sárt saknað og það tómarúm sem eftir er getur enginn fyllt.

En þakklætið fyrir að hafa átt þig að og að við munum hittast aftur stendur eftir og huggar.

Ég mun aldrei gleyma þér, ég mun ávallt geyma minninguna um þig í brjósti mínu, minninguna um ástkæran föður minn.

Skilaðu kveðju til mömmu frá mér. Guð blessi þig.

Með þökk ég kveð þig,

kæri pabbi minn.

Ég kann víst ekki

að skrifa um feril þinn.

En allt það góða

er þú kenndir mér

mun ávallt sýna

rétta mynd af þér.

Nú færðu hvíld

og hvíldin sú er góð,

þó hverfi spor

sem vitna um langa slóð.

Nú sveipast blessun

sál og andi þinn

og sofðu í friði

elsku pabbi minn.

(R.K.)

Ég elska þig, þinn

Árni.

Mig langar að minnast Birgis Pálssonar, mágs míns, með nokkrum orðum. Birgir var myndarlegur maður, hávaxinn og dökkur yfirlitum. Hann vakti athygli þar sem hann kom, gat verið hvass en var mjúkur fyrir innan skelina.

Hann var 78 ára þegar hann féll frá en það telst ekki hár aldur í dag. Hann hafði átt við veikindi að stríða í nokkur ár en síðastliðið ár hrakaði heilsu hans ört með þeim afleiðingum að hann lést föstudaginn 19. október 2018.

Birgir fæddist í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst þar upp. Hann flutti ungur maður til Vestmannaeyja þar sem hann kynntist eiginkonu sinni, henni Sibbu.

Það sem eftir lifði ævinnar bjó hann á Suðurlandinu en Bárðardalur var þó alltaf dalurinn hans.

Okkar kynni hófust þegar ég fór að venja komur mínar í Hveragerði fyrir 47 árum. Honum fannst ég óttalegur krakki, sem ég auðvitað var, og mér fannst hann næstum því karl en 16 ár skildu okkur að. Okkur varð þó vel til vina og alltaf tók hann mér með hlýju.

Það var alltaf gott og gaman að koma til þeirra og samgangur á milli heimilanna var töluverður.

Birgir átti til að birtast jafnt að degi sem kvöldi, þiggja kaffisopa og svolítið spjall, og var það ánægjulegt. Alltaf var hann að velta ýmsu fyrir sér sem hann vildi ræða og segja frá.

Ófáum áramótum höfum við eytt saman, bæði í upphafi búskaparára okkar Svenna og einnig hin síðari ár. Birgir hafði alltaf gaman af því að sitja í góðum hópi og spjalla um allt milli himins og jarðar.

Hann hafði mikla ánægju af því að ferðast og elskaði dalinn sinn og þangað voru ferðirnar ófáar. Þau hjónin áttu þessa ferðagleði sameiginlega og gaman var að ferðast með þeim. Aldrei taldi Birgir eftir sér að keyra, nánast hvert á land sem var og þurfti fyrirvarinn ekki að vera langur.

Minnist ég m.a. ógleymanlegrar helgarferðar í Ólafsfjörð. Sú ferð var ákveðin með nær engum fyrirvara og var hin ánægjulegasta. Á síðasta ári missti Birgir sinn lífsförunaut þegar Sibba féll frá eftir fremur skammvinn veikindi. Þá var eins og lífsneisti hans færi að dofna.

Mig langar að þakka fyrir samfylgdina með þessum ljóðlínum:

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Sigrún Arndal (Sirrý).

Í dag verður ástkær frændi minn, Birgir Pálsson, borinn til grafar. Því miður get ég ekki kvatt hann í dag með nærveru minni, en ég mun kveðja hann í huganum og kveikja á Stóruvallakerti hér í Sviss í minningu hans. Dagurinn í dag er skrítinn, þar sem ég kveð frænda minn í dag um leið og ég held upp á 60 ára afmæli mitt.

Birgir var mikill Bárðdælingur, unnandi hálendis og víðáttu Íslands. Hann elskaði að ferðast um landið og það var alltaf greinilegt að hann var á heimaslóðum þegar hann kom í dalinn sinn eða til óbyggða. Birgir var einnig mikill dýravinur og átti alltaf erfitt að upplifa eymd dýra. Ég held satt að segja að hann hafi til dæmis átt fá gæludýr, því hann átti svo erfitt með að sjá á eftir þeim þegar þeirra dagar voru taldir.

Það er oft sagt að sumir séu svo miklir veiðimenn að þeir geti dorgað fisk úr drullupolli. Það var nú kannski ekki alveg svo með Birgi frekar en aðra, en hann var ótrúlega lunkinn við að veiða fisk hvar sem hann kastaði línu. Ég sjálfur hef aldrei verið heppinn veiðimaður og því miður dró ég það að spyrja Birgi hvert leyndarmálið væri þar til ég var sjálfur hættur að veiða. En nú veit ég sannleikann.

Ein af uppáhaldstómstundum Birgis var að spila bridge og ég held að mér hafi fyrst fundist Birgir byrja að vera gamall þegar ég heyrði að hann væri hættur að spila, en á hans yngri árum gat hann auðveldlega setið við spilaborðið næturlangt. Þrátt fyrir mikla ást Birgis á gömlu heimasveitinni, hálendinu og ferðalögum, þá komst sú ást aldrei nálægt ást hans á börnum sínum, barnabörnum og langafabörnunum. Það kom alltaf mjúkur glampi í augu hans þegar hann ræddi um eitthvert þeirra.

Kæru Guðbjörg, Sævar, Brynja, Árni, Sigurbjörg, barnabörn og langafabörn, ég og Björk sendum ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu dögum.

Nú mun hann liggja við hlið sinnar heittelskuðu Sibbu, sem hann hefur deilt nánast allri sinni ævi með.

Hvíl í friði, kæri frændi, ég mun heilsa upp á ykkur hjónin næst þegar ég verð á Íslandi.

Jón Páll Haraldsson.