Nýju húsin Þetta verða söluhús fyrir hvalaskoðun og svipaða starfsemi.
Nýju húsin Þetta verða söluhús fyrir hvalaskoðun og svipaða starfsemi. — Tölvumynd/Yrki arkitektar
Nú er ljóst að framkvæmdir við ný söluhús og umhverfi við Ægisgarð við Gömlu höfnina munu frestast um eitt ár. Til stóð að hefja framkvæmdir í desember næstkomandi og þeim átti að ljúka í maí 2019. Í septembermánuði voru framkvæmdirnar boðnar út.

Nú er ljóst að framkvæmdir við ný söluhús og umhverfi við Ægisgarð við Gömlu höfnina munu frestast um eitt ár. Til stóð að hefja framkvæmdir í desember næstkomandi og þeim átti að ljúka í maí 2019.

Í septembermánuði voru framkvæmdirnar boðnar út. Alls bárust fjögur tilboð í verkefnið. Verktíminn var ákveðinn frá 1. desember til 1. maí á næsta ári. Eftir yfirferð tilboða hefur verið ákveðið að hafna öllum tilboðum. Kostnaðaráætlun var 323,3 milljónir króna. Lægsta boð var undir kostnaðaráætlun (82,2%) en hin yfir (111-145%).

Í úboðsgögnunum var áskilin reynsla af sambærilegum verkum. Að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna, var það metið svo að lægstbjóðanda skorti reynslu enda ekki langt síðan það fyrirtæki var stofnað.

„Og þar sem rekstraraðilar í hvalaskoðuninni eru viðkvæmir fyrir því ef verkefnið færi að teygjast fram yfir 1. maí var talið tryggara að hafna öllum tilboðum og undirbúa verkefnið miðað við framkvæmdir næsta haust,“ segir Gísli.

Í millitíðinni verður rætt frekar við þá aðila sem eru með hafsækna ferðaþjónustu um hvernig best verður staðið að framkvæmdum.

Verkefnið felst í jarðvinnu, lagnavinnu, gerð sökkla og húsa ásamt frágangi umhverfis í samræmi við tillögur Yrkis arkitekta, en auk þeirra hafa Hnit og Verkís komið að hönnun verkefnisins. sisi@mbl.is