Inga Sif Ólafsdóttir
Inga Sif Ólafsdóttir
Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Inga Sif Ólafsdóttir, kennslustjóri kandídata hjá Landspítalanum og formaður í nefnd velferðarráðuneytisins sem skipuleggur námsblokkir læknakandídata í starfsnámi, segir Íslendinga sem útskrifast sem læknar erlendis velkomna á kandídatsár á spítalanum. Þeir séu hópur sem spítalinn vilji gjarnan fá heim að loknu námi.

„Ég hef ekki áhyggjur af þeim Íslendingum sem eru að læra læknisfræði erlendis. Þeir komast að hjá okkur svo fremi sem þeir uppfylla okkar skilyrði og standast okkar kröfur. Við höfum til fjölda ára ekki verið að fullmanna kandídatsstöður á Landspítalanum eða Sjúkrahúsi Akureyrar. Það er því pláss fyrir fleiri en hefur verið.

Þarna er á ferð íslenskumælandi fólk með læknismenntun. Við verðum að gera allt sem við getum til að kynna fyrir þeim íslenskt heilbrigðiskerfi og stuðla að því að meiri líkur séu á að þeir komi til okkar í framtíðinni. Síðustu ár höfum við snúið vörn í sókn. Það hafa fleiri úr þessum árgöngum verið að koma hingað á kandídatsárið,“ segir Inga.

Skiptist í nokkra hluta

Kandídatsárið er 12 mánuðir. Þriðjungurinn, eða fjórir mánuðir, er á heilsugæslunni. Tveir mánuðir geta verið á heilsugæslu eða spítala. Svo skiptast sex mánuðir í fjóra mánuði á lyflækningasviði og svo tvo mánuði á annaðhvort skurðlækningasviði eða bráðamóttöku.

Fram kom í Morgunblaðinu sl. miðvikudag að hundruð Íslendinga leggja nú stund á læknisfræði í Evrópu. Þar af eru um 60 í Ungverjalandi og um 160 í Slóvakíu, að sögn ræðismanns Íslands í Slóvakíu. Þá kom fram að kandídatsárið er nauðsynlegt við umsókn um almennt lækningaleyfi. Það gildir líka fyrir þá sem ljúka læknisfræði frá Háskóla Íslands.

Inga Sif segir vert að hafa í huga að Norðmenn sem ljúka læknisfræði í Slóvakíu geti ekki gengið að því sem vísu að komast á kandídatsár í Noregi. Dæmi séu um að erlendir læknar sýni kandídatsárinu hér áhuga.

Ekki víst að allir komi heim

Inga Sif bendir á að ekki sé fullvíst að allir íslensku nemendurnir útskrifist, eða snúi heim, að loknu læknanámi ytra. „Sumir eignast maka úti og er því ekki fullvíst að allir komi til Íslands að loknu námi. Fulltrúar úr nefndinni sem skipuleggur kandídatablokkirnar hafa farið í tvígang í ferðir til Debrecen í Ungverjalandi og einu sinni til Martin í Slóvakíu til að kynna kandídatsárið á Íslandi. Einnig eru reglulegar kynningar haldnar á Íslandi þegar margir erlendir íslenskir læknanemar eru í starfsnámi við LSH. Á næsta ári erum við að fá töluvert fleiri umsóknir en við höfum nokkurn tímann fengið áður. Þetta eru alls 95 umsóknir. Það eru ekki aðeins íslenskumælandi læknar. Þetta eru líka læknar af erlendu bergi brotnir sem eru að sækja um. Það spyrst út að við erum með flott kandídatsár á Íslandi. Við erum oftast með 60-70 umsóknir. Umsóknirnar eru því um 20-30 fleiri en vanalega. Stærstur hluti þessara er íslenskumælandi læknar.“

Inga Sif kveðst aðspurð ekki hafa sundurgreint þennan hóp erlendra umsækjenda. Þó sé algengt að þeir séu makar Íslendinga. Sumir hafi sest hér að. Gerðar séu mjög miklar kröfur um íslenskukunnáttu til að komast inn á kandídatsárið.