[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér var að berast í hendur jólagjöf sem lenti á vergangi – gríðarmikill doðrantur sem ég fékk að gjöf jólin 2016, en varð svo viðskila við á kaffihúsi eða bar í miðbæ Reykjavíkur.

Mér var að berast í hendur jólagjöf sem lenti á vergangi – gríðarmikill doðrantur sem ég fékk að gjöf jólin 2016, en varð svo viðskila við á kaffihúsi eða bar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er Jón lærði & náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson, og hefur nú loks borist mér eftir miklum krókaleiðum; ég tók hana úr gjafapappírnum í gær og hlakka mikið til að lesa hana.

Í vikunni lauk ég við tvær nýjar íslenskar bækur: Krossfiska eftir Jónas Reyni og Kláða eftir Fríðu Ísberg og var ánægður með báðar. Er svo hálfnaður með stórkostlega bandaríska skáldsögu, The Overstory eftir Richard Powers, sem fjallar um manneskjur og tré – og loftslagsbreytingarnar. Það er eiginlega fyrsta skáldverkið sem ég les sem tekur á þeim vanda okkar með sannfærandi hætti. Ég les hana hægt; þetta er í raun ljóð, dulbúið sem skáldsaga. Og það eru jafnan bestu bækurnar.