Baldur Arnarson baldura@mbl.is Verði farið að launakröfum verkalýðshreyfingarinnar og vinnuvikan stytt gæti það hækkað byggingarkostnað um jafnvel fimmtung. Þetta segir umsvifamikill verktaki sem óskaði nafnleyndar.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Verði farið að launakröfum verkalýðshreyfingarinnar og vinnuvikan stytt gæti það hækkað byggingarkostnað um jafnvel fimmtung.

Þetta segir umsvifamikill verktaki sem óskaði nafnleyndar.

Máli sínu til stuðnings setti hann fram rauntölur um kostnað á verkefni sem er í gangi í Reykjavík.

Væru laun hækkuð um 42 þúsund á mánuði eftir áramót og vinnuvikan óbreytt, eða 40 stundir, muni heildarkostnaðurinn aukast um 5%. Með sömu launahækkun og styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir aukist heildarkostnaðurinn um 10% og um 15% sé vinnuvikan stytt í 30 stundir.

Hækkar með hærri launum

Tölurnar eru námundaðar. Tekið er tillit til alls launakostnaðar, þ.m.t. hjá undirverktökum og birgjum.

Séu launin aftur hækkuð um 42 þúsund í ársbyrjun 2020 og um 41 þúsund í byrjun árs 2021, alls um 125 þúsund, aukist heildarkostnaðurinn enn meira. Þannig muni 125 þús. kr. launahækkun og stytting vinnuvikunnar í 35 stundir þýða 21% hækkun heildarkostnaðar og 26% hækkun, sé vinnuvikan stytt í 30 tíma.

Verktakinn taldi útreikningana raunhæfa. Meðal annars bendir hann á að ekki sé einfalt mál að fjölga starfsfólki til að vega á móti styttri vinnuviku. Víða sé takmarkað rými á framkvæmdastað, m.a. þar sem byggðin er þétt og eins er takmarkað hvað hægt er að hafa marga starfsmenn, t.d. undir byggingarkrana. Til að halda sömu framleiðslu þurfi því að vinna fleiri næturvinnutíma. Skiladagsetningar séu jafnan stífar. Markaðurinn sé ekki reiðubúinn að gefa eftir tíma, sem kosti enda peninga. Þá sé ekki tekið tillit til áhrifa breytinga gengis á efniskostnað.

Samtökin Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu (FHG) funduðu á fimmtudag. Þau gæta hagsmuna hótela vítt og breitt um landið.

Mörg hótel rekin með tapi

Kristófer Oliversson, eigandi og framkvæmdastjóri CenterHotels, er formaður samtakanna. Hann segir það hafa komið skýrt fram á fundinum að mörg hótel muni ekki bera stóraukinn launakostnað. Þá ekki síst hótel úti á landi. Mörg hafi enda verið rekin með tapi í ár. T.d. hafi athugun KPMG bent til að EBITDA hótela á Norðurlandi (hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta) hafi verið neikvæð um 20% í fyrra.

„Staðan úti á landi gengur ekki upp til lengdar. Tekjurnar hafa dregist saman með styrkingu krónunnar og kostnaðurinn aukist með launahækkunum. Það dugir ekki að krónan veikist lítillega. Það þarf meira til. Þessi þróun hefur leitt af sér ósjálfbæran rekstur á sumum stöðum og landsvæðum. Það virðist vera að Vesturland, Vestfirðir, Norðurland og Austurland eigi mjög undir högg að sækja og mikilvægt að við náum góðu samtali við stjórnvöld um stöðuna,“ segir Kristófer.