„Lækkun bindiskyldunnar er klárlega mjög jákvætt og tímabært skref.

„Lækkun bindiskyldunnar er klárlega mjög jákvætt og tímabært skref. Það er vonandi að frekari skref verði stigin á komandi mánuðum og bindiskyldan lækkuð í 0%,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, um þá ákvörðun Seðlabankans að lækka bindiskyldu vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris úr 40% í 20%.

Ásdís segir að vel sé hægt að færa rök fyrir því að fjárstreymistækið eigi að vera hluti af stjórntækjum Seðlabankans. „Hins vegar, í ljósi aðstæðna, nú þegar viðskiptaafgangurinn hefur verið að dragast saman á sama tíma og talsvert útflæði hefur verið frá lífeyrissjóðunum til fjárfestinga erlendis og öðrum innlendum fjárfestum, þá má spyrja sig af hverju loka eigi fyrir erlent fjármagn, sem eru fjárfestar eins og aðrir og hafa áhuga á að fjárfesta í íslensku hagkerfi, hvort sem slík fjárfesting er í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum íslenskra fyrirtækja,“ segir Ásdís.

Spurð hvort aðgerðin sé hugsuð til þess að styrkja íslensku krónuna segir Ásdís að það sé líklega ekki tilgangurinn og ætti ekki að vera það hjá Seðlabankanum. Þá sé erfitt að segja til um hvaða áhrif aðgerðin muni hafa á gengi krónunnar. „Ég efast þó um að það muni hafa veruleg áhrif en það veltur á áhuga erlendra fjárfesta.“ Hún bætir við að áhugi erlendra fjárfesta sé jákvæður, sem endurspegli sterka stöðu þjóðarbúsins. Seðlabankastjóri gaf ekki kost á viðtali þegar eftir því var leitað.