Í tillögu til samgönguáætlunar fyrir næstu 15 ár er að finna mörg góð verkefni og þau eiga það öll sameiginlegt að falla vel undir lýsinguna „því fyrr því betra“.

Í tillögu til samgönguáætlunar fyrir næstu 15 ár er að finna mörg góð verkefni og þau eiga það öll sameiginlegt að falla vel undir lýsinguna „því fyrr því betra“. Augljóslega er ekki hægt að klára öll verkefnin strax en það verður að segjast eins og er, það er undarlegt hvað sumar framkvæmdirnar raðast seint í þessa samgönguáætlun. Ef maður setur á sig hlutleysisgleraugun þá er til dæmis mjög erfitt að rökstyðja af hverju Reykjanesbrautin er ekki kláruð. Það var meira að segja gert ráð fyrir því í gildandi samgönguáætlun að tvöföldunin sunnan Hafnarfjarðar yrði kláruð árið 2018. Nú á að seinka þeirri framkvæmd um allt að 10 ár.

Það er sama hvað gleraugu maður setur upp; öryggi, byggð, ábati, álag, að klára Reykjanesbrautina er alltaf ofarlega. Það ofarlega að það hlýtur að teljast skrítið að framkvæmdinni sé frestað yfir á annað tímabil samgönguáætlunar.

Við þurfum nefnilega að skoða tvo lista hlið við hlið. Lista yfir framkvæmdir sem er raðað samkvæmt öryggi og hagkvæmni annars vegar og sanngirni hins vegar. Sanngirnissjónarmiðin geta verið fjölbreytt en þegar allt kemur til alls þá myndi það teljast óvenjuleg forgangsröðun að setja slík verkefni fram fyrir verkefni sem byggjast á öryggissjónarmiðum. Á sama tíma myndu slík verkefni líklega aldrei komast til framkvæmda ef það væri aldrei tekið tillit til slíkra sjónarmiða. Það sem er undarlegt er að verkefnið að klára Reykjanesbrautina flokkast auðveldlega ofarlega á báðum þessum listum.

Hvers konar rök er hægt að finna til þess að réttlæta slíka breytingu á forgangsröðun? Ég finn enga réttlætingu nema pólitíska. Í núverandi aðstæðum þar sem samgöngukerfið hefur verið vanfjármagnað síðan 2011, þar sem vantar gríðarlegt fjármagn til þess að vinna upp þann halla sem hrunárin hafa skilið eftir handa okkur, þá eru einu lausnirnar sem ríkisstjórnin leggur til einkaframkvæmdir og veggjöld. Það má beinlínis túlka orð samgönguráðherra um veggjöld til þess að flýta fyrir jafn mikilvægum vegaframkvæmdum og Reykjanesbrautinni sem hótun. Ef þið eruð ekki tilbúin til þess að borga, þá verðið þið að bíða. Á meðan lætur ráðherra búa til vegi sem eru miklu neðar á lista um t.d. öryggissjónarmið. Þessi hótun á ekki bara við um Reykjanesbrautina heldur um allar framkvæmdir í kringum höfuðborgarsvæðið. Þessi hótun er hins vegar innantóm þegar kemur að Reykjanesbrautinni. Þar er ekki nein stytting á vegi eins og Hvalfjarðargöngin. Þar er engin önnur rökrétt leið í boði. Nei, að klára Reykjanesbrautina er öryggismál á bestu mögulegu leið sem er í boði.

Ég hef svo sem ýmislegt annað að segja um forgangsröðun samgönguáætlunar, en hvernig þessari framkvæmd er ýtt niður stingur svo sannarlega í augun.

bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata.

Höf.: Björn Leví Gunnarsson