Mannlíf Ungar stúlkur úti að labba með hundinn sinn.
Mannlíf Ungar stúlkur úti að labba með hundinn sinn. — Morgunblaðið/Eggert
Ekki seinna en um næstu áramót þarf grunnörorkulífeyrir að hækka verulega. Samhliða því verður svo að afnema ákvæði um sérstaka framfærsluuppbót og setja aldurstengda uppbót ofan á grunnlífeyri.

Ekki seinna en um næstu áramót þarf grunnörorkulífeyrir að hækka verulega. Samhliða því verður svo að afnema ákvæði um sérstaka framfærsluuppbót og setja aldurstengda uppbót ofan á grunnlífeyri. Þetta segir í ályktun fulltrúaráðsfundar landssamtakanna Þroskahjálpar sem haldinn var um síðustu helgi.

Í greinargerð með ályktuninni segir að mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun til þeirra öryrkja sem ekki hafi neinar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga séu nú 240 þús. kr. og ráðstöfunartekjur 205 þús. kr. Þeir sem búa einir, sem eru um það bil 30% öryrkja, fá til viðbótar svokallaða heimilisuppbót. Greiðslur til þeirra eru þá 300 þús. kr. og ráðstöfunartekjur 243 þús. kr.

„Með tilkomu framfærsluuppbótar sem tryggði öllum lágmarksgreiðslu hvarf í raun og veru að mestu leyti sá sérstaki stuðningur sem aldurstengda uppbótin átti að veita þeim sem urðu öryrkjar ungir og áttu þar af leiðandi lítinn sem engan rétt hjá lífeyrissjóðum auk þess sem eignastaða þeirra var yfirleitt allt önnur og verri en almennt gerist um fólk á sama aldri. Skerðingarhlutfall framfærsluuppbótar er 100% og frítekjumark er ekkert þannig að vegna hverrar krónu sem viðkomandi aflar skerðist sama fjárhæð, það er með svokallaðri krónu á móti krónu skerðingu,“ segir í ályktun Þroskahjálpar.