Nýja skipið Tilbúið til sjósetningar í Tyrklandi.
Nýja skipið Tilbúið til sjósetningar í Tyrklandi.
Smíði á nýju skipi Olíudreifingar er á lokastigi í Tyrklandi. Ef áætlanir standast mun skipið koma til landsins fljótlega á nýju ári. Þetta er fyrsta nýsmíði á olíuskipi fyrir Íslendinga um áratuga skeið.

Smíði á nýju skipi Olíudreifingar er á lokastigi í Tyrklandi. Ef áætlanir standast mun skipið koma til landsins fljótlega á nýju ári. Þetta er fyrsta nýsmíði á olíuskipi fyrir Íslendinga um áratuga skeið. Hið nýja skip mun dreifa olíu á hafnir landsins eins og Laugarnesið hefur gert um árabil. Laugarnesið er orðið 40 ára gamalt og kominn var tími á endurnýjun flotans.

Samið var um smíði á nýju olíuskipi við Akdeniz-skipasmíðastöðina í Tyrklandi í byrjun þessa árs. Smíðatími var áætlaður 10 mánuðir og hefur sú áætlun að mestu staðist, að sögn Harðar Gunnarssonar, forstjóra Olíudreifingar.

Í áhöfn verða fjórir menn, eins og á Laugarnesinu, og skipstjóri verður sá sami, Ómar Nordahl. Áhöfnin fer til Tyrklands í lok nóvember og þá hefjast prufusiglingar. Stefnt er að því að Olíudreifing fái skipið afhent 17. desember. Heimsiglingin tekur væntanlega 15-16 daga.

Nýja skipið verður búið átta farmgeymum og mun geta flutt allar tegundir eldsneytis sem eru í boði hérlendis. Burðargeta skipsins verður um 230 rúmmetrum meiri en Laugarness. Það mælist 499 brúttótonn en Laugarnesið er 378 brúttótonn. Dæluafköst aukast verulega og ganghraði verður umtalsvert meiri en á Laugarnesinu en aðalvél þess er 500 hestöfl. Nýja skipið verður búið tveimur 750 kW Yanmar-aðalvélum. sisi@mbl.is