Stjórn Félagsbústaða hf. þarf nú þegar að setja félaginu innkaupastefnu og marka þannig skýrar línur varðandi innkaup. Þá þarf framkvæmdastjóri að setja félaginu innkaupareglur á grundvelli innkaupastefnunnar. Þetta kemur m.a.

Stjórn Félagsbústaða hf. þarf nú þegar að setja félaginu innkaupastefnu og marka þannig skýrar línur varðandi innkaup. Þá þarf framkvæmdastjóri að setja félaginu innkaupareglur á grundvelli innkaupastefnunnar. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar til stjórnar Félagsbústaða hf. um viðhaldsframkvæmdir við Írabakka 2-16 á árunum 2012-2016.

Eins og fram hefur komið fór kostnaður við framkvæmdirnar langt fram úr áætlunum. Raunkostnaður við framkvæmdina varð um 728 milljónir, á verðlagi hvers árs, en stjórn Félagsbústaða hafði samþykkt framkvæmdir upp á 398 milljónir. Framúrkeyrslan varð því 330 milljónir eða 83%.

Innri endurskoðun kemur með ýmsar ábendingar í skýrslu sinni um það sem betur má fara hjá Félagsbústöðum. Ábendingunum er skipt í fjóra flokka eftir alvarleika þeirra. Bregðast þarf strax við alvarlegustu veikleikunum. Þar á meðal er ábending um að sækja þurfi um heimild til stjórnar áður en stofnað er til útgjalda sem ekki eru á fjárhagsáætlun. Séu fjárhagsskuldbindingar ekki bornar undir stjórn sé það annars vegar brot á starfsreglum stjórnar og hins vegar skerði það möguleika stjórnar til að rækja eftirlitshlutverk sitt.

Önnur alvarleg ábending er um að Félagsbústöðum beri að hlíta lögum um opinber innkaup. Koma verði á innkaupaferli sem tryggi fylgni við ytra regluverk, jafnræði í innkaupum og gæði og tímanleika þjónustu. Í því felst m.a. að fram fari útboð þegar kostnaðaráætlun fer yfir viðmiðunarfjárhæðir. Þegar óskað sé eftir verðtilboði sé nauðsynlegt að óska eftir því frá stórum hópi til að auka líkur á að fá hagstætt tilboð. Þá verði undirritaðir verksamningar við verktaka að vera fyrir hendi þar sem komi skýrt fram til hvers kaupandi ætlist af seljanda vöru eða þjónustu.

Auk þess er m.a. bent á að gera þurfi reglubundna könnun á viðskiptum við tengda aðila, að nýta ætti aðferðafræði verkefnastjórnunar við stjórnun stærri framkvæmda og að ástandsskoðun eigi að vera forsenda allra framkvæmda. Þá þurfi að bæta eftirlit með verktökum og hafa eftirlit með framkvæmdum á verkstað. Einnig þarf að innleiða reglubundna skýrslugjöf til stjórnar félagsins um framgang framkvæmda.

gudni@mbl.is