Næsta verkefni Eiríks Arnar Norðdahl tengist heimabæ hans, Ísafirði.
Næsta verkefni Eiríks Arnar Norðdahl tengist heimabæ hans, Ísafirði. — Ljósmynd/Baldur Pan
Eiríkur Örn Norðdahl, rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld, hóf skriftir sem 17 ára þunglyndur unglingur. Sjötta og nýjasta skáldsaga Eiríks, Hans Blær, kom út nýlega. Í henni er fjallað um sjálfsmyndina og hlutverk sem einstaklingnum er ætlað að gegna. Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is

Bækurnar mínar eru svo sem allar mismunandi og margar mjög mismunandi. En ætli þær fjalli ekki allar í grunninn um sjálfsmyndina, þetta hvernig maður upplifir sjálfan sig í heiminum. Meira að segja Plokkfiskbókin sem er matreiðslubók fjallaði um sjálfsmyndina,“ segir Eiríkur Örn Norðdahl, höfundur bókarinnar Hans Blær.

„Hans Blær

fjallar kannski um hvernig manni sé ætlað að vera eitthvað sem maður streitist gegn og hvernig maður fær að gegna sumum hlutverkum en ekki öðrum og átökin, óþolið, narsissisman og reiðina sem getur brostið út. Tilgangurinn að svo miklu leyti sem ég vissi hvað ég var að fara út í, eða hvar ég myndi enda var bara að halda áfram að kanna þessa þræði,“ segir Eiríkur.

Misheppnuð bók í æðiskasti

Áður en Hans Blær kom út í bókaformi flutti leikhópurinn, Óskabörn ógæfunnar leikritið Hans Blær í Tjarnarbíói í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar.

„Það atvikaðist bara. Ég byrjaði að skrifa skáldsögu og hélt svo að ég hefði skrifað mig út í horn. Um svipað leyti báðu Óskabörnin mig um leikrit og ég stakk upp á þessari hugmynd, því ég hélt að ég ætlaði ekki að nota hana í bók. Svo lifnaði bókin bara við þegar ég fór að skrifa leikritið,“ segir Eiríkur, sem notar mismunandi aðferðir við að skrifa bækur.

„Ég hef byrjað á ótal bókum sem leiddu einfaldlega ekki neitt og sumar þeirra hef ég meira að segja klárað án þess að gefa út. Fyrir fjórum árum skrifaði ég svona misheppnaða bók í algeru æðiskasti á einum mánuði. Í henni var ein lítil aukapersóna, Hans Blær Viggósbur, sem lét mig ekki í friði og skreið á endanum aftur upp úr ruslafötunni. Og á nú sína eigin bók. Yfirleitt hefst þetta á því að ég fer að toga í einhverja þræði og rekja þá upp. Grunnhugmyndin að Illsku snerist bara um mann sem kveikti í húsinu sínu,“ segir Eiríkur og bætir við að auðvitað sé þetta ekki leið sem spari vinnu, að vaða svona um í myrkrinu. Hann hendi reiðinnar býsn af texta. En sé frekar vinnusamur og finnist þetta skemmtilegt á sama tíma og slíkt vinnulag sé óþolandi og taugatrekkjandi.

Þegar ég var að skrifa Illsku rak ég mig á það hvernig öfgahægrið aðlagar sig samtímanum og notar öll tækifæri til þess að fjarlægja sig klassískri öfgahægristefnu. Þannig eru nasistar samtímans ekki í leðurstígvélum þrammandi um og gargandi á fólk a.m.k. ekki þeir hættulegu. Heldur tala þeir mjúkmálir um mjúk gildi og flokkarnir vilja gjarna tefla fram ólíklegum kandídötum í forgrunni,“ segir Eiríkur og bætir við að Pia Kjærsgaard sé kona, Siv Jensen líka, í Svíþjóð séu gyðingar framarlega, svartir séu í Front National, Pym Fortuyn hafi verið hommi og svo framvegis.

„Einhverjum misserum eftir að ég byrjaði á bókinni rak ég mig á fyrirbærið Milo Yiannapoulus, sem er samkynhneigður karlmaður, giftur svörtum manni, stuðningsmaður Trumps og hrikalegt nettröll sem gerir í því að sjokkera. Þarna var búið að taka þessa sjálfsmyndarpólitík og vopngera hana, aðlaga hana öfgahægrinu,“ segir Eiríkur.

„Hans Blær varð á endanum ekki beinlínis nasisti eða öfgahægrimaður, heldur fyrst og fremst ofbeldisfullt viðbragð. Taugaveiklað reiðiöskur sem á meira skylt við æsingalýð allra tíma, bæði þá ranglátu og þá réttlátu og þá sem einfaldlegu eru athyglissjúkir narsissistar, en hán sprettur samt úr þessum hugmyndaheimi og nýtir sér hann,“ segir Eiríkur og bætir við að hán þoli ekki vinstrimenn.

Hán skrifar bókina sjálft

Í bókinni eru notaðar þéranir þegar Hans Blær talar til eða um móður sína. Eiríkur segir það vera vegna þess að Hans Blær sem skilgreinir sig sem hán „skrifi“ bókina sjálft.

„Hán er sögumaður, og ávarpar móður sína með þérunum, af sömu ástæðum og hán skrifar um sjálft sig í þriðju persónu til þess að skapa ákveðna fjarlægð, til að fjarlægja sig, kæla sig niður og til þess að vera með stæla. Það er grunnstilling í persónuleika hánar að vera með stæla við allt og alla. Þá fannst mér sem höfundi líka áhugavert að spegla þéranirnar og hánanirnar. Þetta eru bæði fornöfn sem vefjast fyrir sumu fólki og ólíkum hópum. Yngra fólk á auðveldara með hánanir og eldra með þéranir. Mér fannst þéranirnar ríma betur við tungumál bókarinnar,“ segir Eiríkur.

17 ára þunglyndur unglingur

„Ég hóf skriftir 17 ára sem þunglyndur unglingur og gaf út fyrstu ljóðabókina 23 ára. Eftir það hef ég gefið út átta ljóðabækur, sex skáldsögur, tvö ritgerðasöfn og eina matreiðslubók. Auk þess hef ég þýtt tíu til fimmtán bækur og ritstýrt þremur,“ segir Eiríkur, sem vinnur nú að hugmynd sem hann segir á viðkvæmu stigi.

„Ég vil sem minnst um hana segja. En hún gerist á Ísafirði. Það er raunar óvenjulegt að ég sé ekki með margar bækur í smíðum og einhverjar langt komnar. Fyrir nokkrum vikum var ég ekki með neitt í vinnslu og það hefur sennilega ekki gerst síðan ég var einmitt 17 ára þunglyndur unglingurinn,“ segir Eiríkur, sem tilnefndur var til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Illsku og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir sömu bók árið 2012. Í ár fékk hann Menningarverðlaun DV 2017, fyrir ljóðabókina Óratorrek . Auk þess hlaut Eiríkur Íslensku þýðingarverðlaunin árið 2008, fyrir þýðinguna á bókinni Móðurlaus í Brooklyn . Eiríkur hefur hlotið margvíslegar aðrar viðurkenningar, meðal þeirra má nefna Ljóðstaf Jóns úr Vör; Rauðu hrafnsfjöður lestrarfélagsins Krumma fyrir bókina Eitur fyrir byrjendur ; frönsku Tranfuge-verðlaunin auk tilnefninga til Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étrange.