Fjarðabyggð Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Fjarðabyggð Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Bæjarráð Fjarðabyggðar mótmælir í ályktun sem samþykkt var í vikunni harðlega boðaðri aukagjaldtöku, í formi 10% hækkunar á heildartekjum útgerðar, sem lögð verði á uppsjávarstofna, umfram aðrar tegundir sjávarfangs, eins og gert er ráð fyrir í...

Bæjarráð Fjarðabyggðar mótmælir í ályktun sem samþykkt var í vikunni harðlega boðaðri aukagjaldtöku, í formi 10% hækkunar á heildartekjum útgerðar, sem lögð verði á uppsjávarstofna, umfram aðrar tegundir sjávarfangs, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi um veiðigjöld sem nú er í meðförum Alþingis.

„Með því að hækka heildartekjur um 10% getur reiknistofn veiðigjalds hækkað allt að 50 til 60% sem þýðir í raun að skattstofn er í raun milli 46 og 66% á uppsjávartegundir en ekki 33% eins og boðað er á aðrar fisktegundir,“ segir bæjarráð í ályktun sinni. Þar er minnt á að í Fjarðabyggð séu starfrækt þrjú stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem hafi fjárfest mikið í uppbyggingu og skipakosti í tengslum við veiðar á uppsjávarafurðum. Fyrirtæki þessi séu máttarstólpar og leggi mikið til íslensk samfélags í formi skatta og verðmætasköpunar til útflutnings. Sé það vilji stjórnvalda að leggja á veiðigjöld hljóti að vera skýlaus krafa að jafnræði sé í slíkri skattlagningu og ekki sé tekin út ein grein sjávarútvegs og lögð á hana aukin gjöld umfram aðrar að ógleymdu þeirri miklu óvissu sem nú ríkir varðandi stöðu loðnu- og makrílstofnsins.

Fjárfestingar dragast saman

„Slíkt mun verða til þess að fjárfestingar og frekari uppbygging í uppsjávariðnaði muni dragast saman. Þá minnir bæjarráð á fyrri bókanir sínar um veiðigjöld og þá eðlilegu kröfu að veiðigjöld séu sanngjörn og í takt við afkomu sjávarútvegsins hverju sinni. Einnig ítrekar bæjarráð þá afstöðu sína að viðkomandi sjávarútvegssveitarfélög fái hlutdeild í veiðigjöldum í ljósi þeirra fjárfestinga sem viðkomandi sveitarfélög hafa lagt út í og hvaðan þessi útflutningsverðmæti koma,“ segir bæjarráð. sbs@mbl.is