Sofia Helin, eins og við þekkjum hana alls ekki.
Sofia Helin, eins og við þekkjum hana alls ekki. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leiknir framhaldsþættir í Ríkissjónvarpinu eru af ýmsum gerðum. Lítum aðeins á þá sem eru eða hafa verið að hefja göngu sína eða snúa aftur.

Undir sama himni nefnist þýsk spennuþáttaröð í sex hlutum sem RÚV byrjar að sýna annað kvöld, mánudagskvöld. Hún fjallar um austurþýskan njósnara á áttunda áratug síðustu aldar sem fær það verkefni að fara til Vestur-Þýskalands, táldraga vesturþýskar konur sem vinna hjá ríkis- og varnarstofnunum og njósna um þær. Nokkuð óvenjulegt starf en menn þurfa vitaskuld að leggja ýmislegt á sig á viðsjárverðum tímum. Aðalhlutverk leika Tom Schilling, Friederike Becht og sænska leikkonan Sofia Helin sem landsmenn tóku miklu ástfóstri við í Brúnni, þar sem hún lék hina sérlunduðu rannsóknarlögreglukonu Sögu Norén. Ugglaust bíða ýmsir spenntir eftir því að sjá Helin í öðru hlutverki. Mun henni ef til vill stökkva bros? Hermt er að hún tali bæði þýsku og ensku í þáttunum.

Síðasta þriðjudag hóf RÚV sýningar á Týnda vitninu (The Level), breskri glæpaþáttaröð um Nancy Devlin sem er í rannsóknarlögreglunni og er dregin inn í morðrannsókn á eiturlyfjasala. En það sem enginn í kringum hana veit er að hún er týnda vitnið sem bæði lögreglan og morðinginn eru að leita að. Aðalhlutverk leika Karla Crome, Noel Clarke og Laura Haddock.

Á sunnudagskvöldum er Patrick karlinn Melrose kominn á stjá. Til að byrja með hélt maður að hér væri um að ræða leiklistarlega leikfimisæfingu fyrir skapgerðarleikarann Benedict Cumberbatch; hann fetti sig og bretti og sprautaði sig í æð, án þess að aðrir kæmust, að, en í öðrum þættinum var breytt um kúrs og hjólinu snúið aftur í tímann. Synd væri að segja að faðir kappans hafi verið geðfelldur maður.

Á fimmtudögum er Glæpahneigð (Criminal Minds) enn og aftur komin á sinn stað en þrettánda serían er nú í gangi. Þykir eflaust einhverjum nóg um enda liggur her manna í valnum eftir raðmorðingja af öllum stærðum og gerðum. Alltaf eru þeir þó stöðvaðir að lokum, að undangenginni skeleggri greiningu, þar sem undarlega auðvelt er að nálgast persónulegustu upplýsingar.

En svona er heimurinn í dag.