Akurey Er í Kollafirði, skammt undan Örfirsey. Þar er mikið fuglavarp.
Akurey Er í Kollafirði, skammt undan Örfirsey. Þar er mikið fuglavarp. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg, hefur kynnt áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði. Akurey er lág og vel gróin eyja, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg, hefur kynnt áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði.

Akurey er lág og vel gróin eyja, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Í Akurey verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista, og er lundi langalgengastur, um 15.000 pör. Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð þar sem viðmiðið er yfir 10.000 pör. Vinsælt er að sigla með ferðamenn að eyjunni á sumrin til að kynna þeim lundabyggðina.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að markmiðið með friðlýsingu Akureyjar sé að vernda þetta alþjóðlega mikilvæga fuglasvæði í Reykjavík og sér í lagi varpstöð lunda sem er á válista um fugla, skilgreindur sem tegund í bráðri hættu. Einnig er markmiðið að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að hlúa að og mæta þörfum tegunda sem verndin beinist að eða til að viðhalda búsvæðum eða vistgerðum. Takmarka má umferð um friðlönd á vissum tíma árs eða á tilteknum stöðum ef það er nauðsynlegt.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til 2. janúar 2019. Þeim skal skilað til Umhverfisstofnunar.