Skjól Smáhýsin eru ætluð heimilislausu utangarðsfólki.
Skjól Smáhýsin eru ætluð heimilislausu utangarðsfólki. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Enn liggur ekki fyrir hvar fyrirhuguð smáhýsi fyrir utangarðsfólk í Reykjavík verða staðsett, en það verður þó í fimm húsa þyrpingum vestan Elliðaáa.

Enn liggur ekki fyrir hvar fyrirhuguð smáhýsi fyrir utangarðsfólk í Reykjavík verða staðsett, en það verður þó í fimm húsa þyrpingum vestan Elliðaáa. Þetta segir Elfa Björk Ellertsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Um síðustu helgi auglýsti innkaupadeild borgarinnar fyrir hönd velferðarsviðs eftir tilboðum í hönnun, smíði, flutning á verkstað, niðursetningu, tengingar og frágang á nærumhverfi 20 smáhýsa í Reykjavík. Borgarrráð hefur samþykkt að verja allt að 450 milljónum króna í verkefnið. Kaup á slíkum smáhýsum falla að skaðaminnkunarverkefninu „Húsnæði fyrst“ og eru liður í aðgerðaáætlun í málefnum utangarðsfólks.

Í auglýsingunni segir að stærð húsanna skuli vera sem næst 25 fermetrar og ytra og innra byrði þeirra þarf að vera sterkbyggt. Húsin verða í þyrpingum og skulu bjóðendur miða við fjarlægðir milli byggingahluta við hönnun og staðsetningu húsanna. Gerð er rík krafa um að húsin verði hlýleg að utan sem innan. Tilboðum á að skila fyrir 3. desember næstkomandi.

Elfa Björk segir að gert sé ráð fyrir því að fyrstu nýju smáhýsunum verði úthlutað í febrúar á næsta ári. Við það er miðað að í hverju smáhýsi búi einstaklingur eða par. Þau eru ætluð fyrir fólk sem erfiðlega hefur gengið að útvega búsetuúrræði vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, annarra veikinda eða sérþarfa. Fyrir nokkrum árum var smáhýsum fyrir utangarðsfólk komið fyrir á svæði á Granda. Reynslan af þeim hefur verið metin góð, fólkið fékk stuðning og gistinóttum í fangaklefum lögreglu fækkaði.