Jólagarður Birna Sigmundsdóttir í góðum félagsskap með dúkkum í fötum sem hún hefur saumað á þær. Birna skreytir garðinn sinn til þess að gleðja börn og fullorðna í nágrenninu.
Jólagarður Birna Sigmundsdóttir í góðum félagsskap með dúkkum í fötum sem hún hefur saumað á þær. Birna skreytir garðinn sinn til þess að gleðja börn og fullorðna í nágrenninu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is „Mér finnst svo yndislegt að gleðja aðra og mér hlýnar um hjartarætur að sjá bros á vör og blik í augum barna og eldra fólks sem sumt hvert verður aftur börn þegar þau koma í álfa- og jólagarðinn minn.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Mér finnst svo yndislegt að gleðja aðra og mér hlýnar um hjartarætur að sjá bros á vör og blik í augum barna og eldra fólks sem sumt hvert verður aftur börn þegar þau koma í álfa- og jólagarðinn minn. Þegar börnin ganga brosandi garðinn, tala við álfana og gera athugasemdir ef þeir eru ekki á sama stað og í fyrra þá er tilganginum náð,“ segir Birna Sigmundsdóttir blómaskreytir sem gleður ungviði og eldra fólk í nágrenni við heimili sitt Dragaveg 5 sem hún keypti fyrir sex árum og byrjaði á að setja niður blóm í garðinn sem hún hafði útbúið.

„Ég vildi gleðja börnin og setti álfa í garðinn en svo vatt þetta upp á sig og við bættust kusur, endur, hænur og gosbrunnar. Álfarnir eru nú um 400. Ég þurfti að byggja bílskúr til þess að koma dótinu fyrir með góðu móti og raða eftir kúnstarinnar reglum. Það tekur mig allt að tvo og hálfan mánuð að þurrka og ganga frá álfagarðinum,“ segir Birna sem byrjar um leið og álfarnir eru frágengnir að setja upp jólagarðinn.

„Ég er allt árið að huga að jólagarðinum og leita að einhverju nýju sem gleður unga og aldna. Ég fann til dæmis í góða hirðinum fallegar dúkkur frá 1957. Þær vantaði föt svo ég keypti litla jóladúka til þess að sauma úr þeim fínustu jólaföt, skó og veski. Þetta kostar auðvitað sitt en ég tel það ekki eftir mér, er hagsýn og nýti mér tilboð og útsölur,“ segir Birna sem byrjar fyrstu viku nóvember að fara út með fyrsta jólaskrautið.

„Ég er ekki lengur á vinnumarkaði, er orðin 65 ára gömul og get því gefið mér þann tíma sem þarf til að setja upp garðana. Ég hef enga hjálp þegið því ég vil gera allt sjálf og eftir mínu höfði, skipuleggja, hanna og hafa þetta fallegt,“ segir Birna sem gladdist þegar hluti jólaskrautsins fauk á hliðina um daginn að fá bréf frá fólki í nágrenninu sem bauðst til þess að hjálpa til við að koma garðinum í lag.

Að sögn Birnu koma bæði hópar barna úr leikskólum og frá dagmömmum að skoða garðana og fylgjast með uppsetningu á þeim. Einnig eldra fólk á göngu í nágrenninu og frá Fríðuhúsi. Hún segir töluverða bílaumferð oft í götunni og dýrin og dúkkurnar heilli mest í jólagarðinum. Á miðnætti á þrettándanum byrji hún að taka niður jólaskrautið og þurrka inni í húsi. Það klárist í byrjun mars og þá hefjist undirbúningu álfagarðsins.

Kusur og álfar í hengirúmum

„Ég þurfti að byggja bílskúr til þess að koma skrautinu og álfunum fyrir. Það þarf allt að vera í röð og reglu því börnin gera athugasemdir ef álfarnir fara ekki á réttan stað. Þar sem kusurnar liggja þarf að vera álfur í hengirúmi,“ segir Birna sem leyfir börnunum að ganga um álfagarðinn og líka jólagarðinn en segir að snúrur í honum geti reynst litlum fótum hættulegar. „Börnin detta stundum inn í álfaheim og tala við álfana. Mér finnst yndislegt þegar ég er spurð af hverju þessi álfur sé að lesa en ekki hinn. Hvað þessi sé að gera og svo framvegis,“ segir Birna sem auk þess að vera blómaskreytir starfaði sem útfararstjóri og sjúkraliði.

„Mér er í blóð borið að hjálpa og gleðja og finnst ekki veita af því í allri neikvæðninni sem ríkir í samfélaginu. Ég lifi fyrir að gleðja fólk,“ segir Birna sem lætur sér garðana ekki nægja til að gleðja fólk heldur býður eldra fólki í nágrenninu til sumarhátíðar.

„Það koma um 70 manns á sumarhátíðina. Ég býð upp á heitt súkkulaði og rjómapönnukökur sem ég baka og auðvitað er líka sherrýstaup í boði. Það er boðið upp á söng og hafa félagarnir, Davíð Ólafsson, Stefán Helgi Stefánsson og Gissur Páll Gissurarson sungið fyrir gesti,“ segir Birna sem býður einnig upp á söng og dans með undirspili harmónikkuleikara.