Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til upplýsingatækniverðlauna SKÝ. Að þessu sinni verða einnig fjórir nýir verðlaunaflokkar auk heiðursverðlauna fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi.

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til upplýsingatækniverðlauna SKÝ. Að þessu sinni verða einnig fjórir nýir verðlaunaflokkar auk heiðursverðlauna fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Um er að ræða verðlaun fyrir stafræna þjónustu, tölvuleikjagerð, framúrskarandi fyrirtæki og sprotafyrirtæki.

Hefðbundnar reglur eru við tilnefningar til heiðursverðlauna, en nokkuð opið er varðandi tilnefningar í hina nýju flokka, að sögn Arnheiðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra SKÝ.

„Krafa hefur verið um að hampa einnig þeim sem hafa verið að gera eitthvað flott á árinu.Við ákváðum að búa til nokkra flokka og sjá hvort við getum ekki gert eitthvað skemmtilegt úr því. Félagið á 50 ára afmæli á þessu ári og við höfum gert ýmsar breytingar og þetta er kannski síðasti liðurinn í því.“