Svo tengi ég Airpods og snúruleysið gerir upplifunina afar þægilega.
Svo tengi ég Airpods og snúruleysið gerir upplifunina afar þægilega. — Ljósmynd/Stefán E. Stefánsson
Nú er nokkuð um liðið síðan ég fjallaði um nýjustu aðferðina sem ég notast við til þess að fjölga æfingatímum yfir vikuna, en það er vatnsróðrarvél frá Water Rower.

Nú er nokkuð um liðið síðan ég fjallaði um nýjustu aðferðina sem ég notast við til þess að fjölga æfingatímum yfir vikuna, en það er vatnsróðrarvél frá Water Rower. En frá því að ég skrifaði um hana hef ég átt ótal samtöl við fólk um róðurinn og áhuginn á þessari íþrótt er mun meiri en ég hafði gert mér grein fyrir. Í pistlinum hér að ofan er komið inn á jólahefðir og þjóðsöguna um jólasveinana. Og þótt þar sé á ferðinni minni sem mótað hefur menningu þjóðarinnar um langan aldur þá er rétt að benda á að það hefur róðurinn einnig gert. Allt fram á upphaf 20. aldarinnar sóttu Íslendingar sjóinn á opnum trébátum sem gengu fyrst og síðast fyrir handafli þeirra sem róið gátu. Kannski skýrist áhuginn á róðri hér á landi af því vöðvaminni sem við höfum fengið í arf frá hetjum hafs á fyrri öldum. En hvað sem líður vangaveltum af þessu tagi þá reyni ég að róa 20 km á viku, tek þá vegalengd í tveimur atrennum. Það hefur gefist vel en kannski má ég lengja aðeins í því nú þegar þolið hefur aukist.

Annað sem gerir róðurinn skemmtilegan er ný græja (konan mín segir að ég sé sjúkur í svona dót) frá Water Rower sem gerir mér kleift að horfa á iPhone eða iPad meðan á róðrinum stendur. Tækið, sem skrúfað er á sjálfa róðrarvélina, tryggir að árarbandið, sem tengir mig við vatnstankinn fremst á vélinni, verði ekki fyrir neinum áhrifum af þessari aukagetu. Svo stilli ég einfaldlega á Netflix, finn góðan þátt um eitthvað fróðlegt eða skemmtilegt og held svo af stað „á haf út“.