Víkverji var á leið til vinnu morgun einn í vikunni og varð þá fyrir þeirri skemmtilegu reynslu að þurfa aðeins að stoppa einu sinni á rauðu ljósi á leiðinni.

Víkverji var á leið til vinnu morgun einn í vikunni og varð þá fyrir þeirri skemmtilegu reynslu að þurfa aðeins að stoppa einu sinni á rauðu ljósi á leiðinni. Þetta fannst Víkverja nokkuð gott því að á þessari leið eru 11 umferðarljós, þar af fjögur við gangbrautir.

Ástæðan fyrir því að Víkverja þótti þetta sæta tíðindum er að allajafna þarf hann að stoppa fimm til sex sinnum á leiðinni. Umferðin höktir áfram, hann er rétt kominn af stað þá þarf hann að stoppa aftur og ef það er einhver taktur á milli ljósa á gatnamótum setja gangbrautarljósin hann úr skorðum.

Víkverji hefur nokkrum sinnum velt fyrir sér að gera þetta að umtalsefni, en ákveðið að íþyngja ekki lesendum með tuði um umferðarljós. Í ferðinni í vikunni gerði hann sér hins vegar grein fyrir hvað umferðin gæti gengið hratt fyrir sig á samræmdum ljósum og gat ekki orða bundist, ekki síst vegna þess að hann veit að umferðarljósasamræmingartæknin (hér gerir Víkverji tilkall til lengsta orðs ársins, mætti bæta um betur með orðinu umferðarljósasamræmingartæknistjóri) er til, þótt ekki hafi hún borist til Reykjavíkur.

Hlýindin undanfarið hafa komið Víkverja í opna skjöldu. Við fyrsta frost dró hann fram þykka peysu og fóðraða úlpu og ákvað að nú væri kominn tími til að fara í vetrarhaminn. Í kjölfarið komu eintóm hlýindi og hefur hitinn jafnvel farið upp fyrir tíu gráður á suðvesturhorninu og víðar.

Nóvember var með þeim hlýrri og desember gefur honum lítið eftir enn sem komið er. Veturinn ætlar sem sagt að vera eins og sumarið, enginn munur á veðri í júní og nóvember. Reginmunurinn er styttri sólargangur, en hitinn er sá sami, og Víkverji veltir fyrir sér hvort hann þurfi ekki að fara að slá blettinn með þessu áframhaldi.