Ingibjörg Aðalheiður Sigtryggsdóttir fæddist 24. maí 1936 á Kamphóli, Þorkelshólshreppi, V-Húnavatnssýslu. Hún lést 6. desember 2018 á vistheimilinu Lundi á Hellu.

Hún var dóttir Sigtryggs Jóhannessonar, f. 7. febrúar 1906 á Þverá fremri, Torfustaðahreppi, V-Húnavatnssýslu, d. 10. júní 1948, bónda í Öxnatungu og í Þorkelshólshreppi og í Ytri-Hraundal, og Guðrúnar Jónínu Pétursdóttur, f. 21. mars 1914 á Tittlingastöðum (nú Laufási) í Víðidal í Þorkelshólshreppi, d. 16. nóvember 1989.

Börn þeirra: Elst er Brynhildur Aðalbjörg, f. 1934, svo Ingibjörg Aðalheiður, f. 1936, Ólína Helga, f. 1937, Jóhanna Sigríður, f. 1943, og svo Benedikt Hákon Ingvarsson, f. 1952, d. 2007.

Þegar faðir Ingibjargar dó var hún 12 ára. Hún flutti

til Reykjavíkur til frændfólks síns og þar bjó hún þangað til hún varð 16 ára en þá fékk hún sér vinnu og flutti út af fyrir sig.

Ingibjörg fór í Húsmæðraskólann 1953-1954, sem þá var í Hveragerði.

Ingibjörg kynntist svo Gísla Jónssyni, f. 1935, og giftist honum í september 1955. Þau eignuðust eina dóttur, Bjarnveigu Jónu Gísladóttur, f. 3.6. 1955. Ingibjörg og Gísli skildu svo árið 1957.

Síðar kynnist svo Ingibjörg manni sem hún giftist síðar, eða 4. júlí 1965, Árna Hilmari Hólm, f. 22.11. 1931, d. 4.12. 2007.

Þau tóku að sér fósturbarn, Vilborgu Hafsteinsdóttur, f. 28.10. 1962, en hún var ekki ættleidd.

Þau hjónin höfðu mikið gaman af hestum og áttu hesta í fjölda ára.

Ingibjörg var verkakona mestan hluta af sínu lífi og vann þá við ýmis störf. Fyrstu störf hennar voru í dósaverksmiðju, á saumastofu, hjá Álafossi, hjá póstinum og í sláturhúsi.

Síðustu 19 árin var Ingibjörg formaður Verkalýðsfélagsins Þórs á Selfossi.

Útför Ingibjargar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 15. desember 2018, klukkan 15.

Ingibjörg var listræn kona og elskaði að teikna og mála og hún elskaði náttúruna líka. Hún var algjör snillingur við saumaskap og held ég að fáir geti farið í hennar spor þar.

Því miður missti hún sjónina og heyrnina að mestu rétt um og eftir 70 ára aldur svo hennar draumur um að mála og ferðast um landið á sínum efri árum brast.

Ég á margar góðar minningar um öll ferðalögin sem við fórum í þegar ég var að alast upp.

Hún var heilsulítil síðustu árin sem hún lifði, svo nú vona ég að hún bæði sjái og heyri og sé laus við alla verki og sé komin til elsku Árna síns.

Það er skrítið að geta ekki hringt í hana lengur og bara spjallað og að geta ekki farið í heimsókn fyrr en í næsta lífi, hinum megin eins og sumir segja.

Hvíl í friði elsku mamma, amma, langamma, systir og frænka.

Aníta Hólm.

Elsku Inga systir. Það var sárt að ná ekki að kveðja þig, en ég get bara sjálfri mér kennt um að vera bara svona ónýt að heimsækja þig. Þó er að sumu leyti bara betra að kveðjast ekki – heldur hittast glaðar og hressar seinna á yndislegum stað eða tilveru. Ég vona að þú sért núna laus við allt vont og sjáir og heyrir helst alla leið hingað. Inga mín, það er gaman að rifja upp gömlu dagana ungu.

T.d. þegar við ansi litlar ætluðum upp í fjárhús til pabba. Ég gef mér að við höfum verið þá þú tveggja ára og ég fjögurra ára.

Ég hef nú kannski ráðið ferðinni þá. Við vorum komnar ofan í skurð á túninu (það var ekki snjór, en svona hálffölnað gras – kannski vor?). Þú, litla/stóra systir mín, komst ekki upp úr skurðinum en ég gat og var montin.

Hvernig ferðin endaði man ég ekki. Þetta var í eina skiptið á ævi okkar þar sem ég gat aðeins meira en þú. Þú varst alltaf duglegri systirin af okkur tveimur og auðvitað öfundaði ég þig, já, já.

Og þegar við vorum inni í kuldanum á veturna, fengum bara að vera uppi í rúmi undir sæng og teiknuðum alls konar fólk eða dýr eða t.d. tískuföt á dúkkulísur þá var allt svo lifandi hjá þér en ekki mér.

Og á sumrin uppi á Stóra-Hól (þetta var í Hraundal) var búskapurinn miklu myndarlegri hjá þér, húsin og dýrin og girðingarnar í kringum túnin.

Svo áttir þú Georg spýtustrák sem þú bjóst til og málaðir í bláum buxum, rauðri peysu og með rautt hár. Það dróst að ég byrjaði í skóla, man ekki af hverju, en þegar þú byrjaðir stuttu á eftir mér varstu strax duglegri í námi.

Svo fannst okkur gaman á hestunum en ekki eins að sækja kýrnar.

Já, það var oft gaman þegar við vorum börn. Svo kom Lóa í heimsókn og a.m.k. ég öfundaði hana af fínu fötunum hennar. Og svo fæddist litla Hanna sem gat svo lítið fyrst.

Svo stækkuðum við og þá var líka stundum gaman. T.d. að fara með ykkur Árna upp í Hraundal og margar aðrar ferðir og útilegur. Alltaf voruð þið svo dugleg að elda og vaska upp kannski bara í lækjum einhvers staðar og gera bara svo margt.

Og þegar þið komuð á Klungurbrekku oft – og ég tala nú ekki um að Læk! Þá var gaman.

Guð geymi þig elsku systir. Þökk fyrir allt.

Hulda.

Þá hefur Inga frænka mín fengið hvíldina og er komin til hans Árna síns.

Síðustu árin hafa verið henni erfið. Bæði missti hún sjónina og hafði slæma heyrn, ásamt margvíslegum öðrum veikindum sem einangruðu hana mikið. Oft héldum við að núna væri hennar tími kominn, en hún hafði alltaf betur.

Húnvetnska seiglan í systrunum frá Öxnatungu er mikil. Síðast heyrði ég í Ingu fyrir um þremur vikum þegar síminn hringdi að kvöldlagi. Hún ætlaði svosem ekkert að heyra í mér, fór eitthvað takkavillt á símanum, en við notuðum þá tækifærið, skiptumst á orðum og inntum fregna.

Hún sagðist hafa það þokkalegt og kvaddi með kveðjum til minna. Síðast sá ég Ingu móðursystur mína, sem alltaf hefur verið hluti af lífi mínu, þegar ég og móðir mín tókum að okkur að koma til hennar nýjum síma í september sl.

Hún sat á ganginum í almenningnum á Dvalarheimilinu Lundi þar sem hún bjó við gott atlæti síðustu mánuðina sína. Þegar við komum til hennar og áður en ég sagði nokkuð sagði hún:

„Komdu sæl Kris mín, það er gaman að þú komst með henni mömmu þinni.“ Þegar ég spurði hvernig hún vissi að ég hefði verið að koma sagðist hún þekkja mig á göngulaginu! Þar urðu svo fagnaðarfundir systra.

Það var alltaf einhver væntumþykja á milli okkar þótt ekki hafi verið mikill samgangur frá því að bernsku minni lauk. En þegar Inga og Árni, sem oftast voru nefnd í sama orðinu, komu vestur í heimsókn til foreldra okkar og okkar, þá kom sumarið og allir urðu eitthvað svo glaðir í hjartanu. Sérstaklega mamma, sem missir mikið núna.

Einnig dvaldi ég um hríð á heimili Ingu og fékk sætt te með mjólk og tekex með smjöri í kvöldkaffi við eldhúsborðið hennar.

Þvílík hamingja. Og þar lærði ég að lesa fimm ára.

Ég votta Anitu, Maríu, Gunnari, Ingu Heiðu, Atla, Miriam, Ramónu og fjölskyldum þeirra alla mína samúð, sömuleiðis Vilborgu og Dagbjörtu og svo mömmu, Lóu og Hönnu.

Hvíl í friði frænka mín.

Engum er ljóst, hvaðan lagt var af stað,

né hver lestinni miklu ræður.

Við sláumst í förina fyrir það,

jafnt fúsir sem nauðugir, bræður!

Og hægt hún fer, en hún færist um set,

þessi fylgd yfir veginn auðan,

kynslóð af kynslóð og fet fyrir fet.

Og ferðinni er heitið í dauðann.

(Tómas Guðmundsson)

Kristjana

Pálsdóttir.