Kúabændur setja sér það markmið að framleiðslan verði kolefnajöfnuð á næstu tíu árum. Umhverfismálin eru tekin inn í nýja stefnumótum Landssambands kúabænda til næstu tíu ára.

Kúabændur setja sér það markmið að framleiðslan verði kolefnajöfnuð á næstu tíu árum. Umhverfismálin eru tekin inn í nýja stefnumótum Landssambands kúabænda til næstu tíu ára.

Landssamband kúabænda gerði stefnumörkun á árinu 2011 sem gilda átti til ársins 2021. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri LK, segir að eðlilegt hafi þótt að endurskoða stefnumörkunina í ljósi nýrra búvörusamninga og sérstaklega breytinga í nautakjötsframleiðslu með ræktun nýs holdanautastofns.

Meginmarkmiðin eru sem fyrr að fjölskyldubúið þar sem eigendur taka þátt í daglegum rekstri búa verði áfram algengasta fyrirkomulag búrekstrar. Helstu nýjungar eru að bændur vilja leggja aukna áherslu á umhverfismál og neytendamál.

Gripið til aðgerða

Stefna þeir að því að íslensk nautgriparækt verði kolefnisjöfnuð fyrir árið 2028. Margrét segir að fyrsta skrefið sé að láta greina stöðuna, fá upplýsingar um það hversu mikil losunin er. Í framhaldinu verði farið í aðgerðir. Hún nefnir að skoða þurfi hvernig hægt sé að draga úr þörf á notkun jarðefnaeldsneytis og taka þátt í skógrækt, endurheimt votlendis og öðrum aðgerðum af því tagi. Þá þurfi að athuga umgengni um rúlluplast og sorpförgun. Nefnir hún í því sambandi að sveitarfélögin standi misjafnlega vel að sorpmálum svo þau mál þurfi að skoða í samvinnu við aðra.

Í neytendamálunum leggja kúabændur áherslu á bætta upplýsingagjöf til neytenda. Hún verði með besta móti, meðal annars með því að upprunamerkingar matvæla verði teknar upp í mötuneytum og á veitingastöðum. Margrét bendir á að stjórnvöld þurfi að koma að því máli.

Meðal annarra atriða í stefnumótuninni er að auka virði hliðarafurða og að heimavinnsla afurða verði gerð aðgengilegri með einfaldara regluverki og leyfisveitingum, ásamt aðgengilegu sölukerfi. Hvatt er til þess að lyfjanotkun í nautgriparækt verði áfram haldið í lágmarki. Þá er ætlunin að koma upp vísindasjóði landbúnaðarins til þess að efla rannsókna- og þróunarstarf, auka virði afurða og búa til fleiri hvata fyrir nemendur til að afla sér framhaldsmenntunar á sviði landbúnaðar.