Jólaverslun Sífellt fleiri kaupa jólagjafir í nóvember.
Jólaverslun Sífellt fleiri kaupa jólagjafir í nóvember. — Morgunblaðið/Hari
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Almennt er mjög gott hljóð í fólki enda gengur vel í verslun þegar kaupmáttur er sterkur.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Almennt er mjög gott hljóð í fólki enda gengur vel í verslun þegar kaupmáttur er sterkur. Ég get hins vegar ekki svarað því hvernig ástandið er í hverri verslun fyrir sig,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Athygli hefur vakið að margar stórar verslanir auglýsa afslætti og tilboð um þessar mundir. Það hefur alla jafna ekki tíðkast þegar jólaverslunin á að vera í hámarki og landsmenn keppast við að strauja kreditkortin. Þannig mátti í Morgunblaðinu í gær til að mynda sjá auglýsingu frá Pennanum/Eymundsson þar sem svokallað skattfrí var boðað um helgina og leikfangaverslunin Toys R Us auglýsti 25% aflátt af flestum vörum.

Andrés segir að jólaverslunin hafi breyst nokkuð síðustu ár vegna tilkomu stórra alþjóðlegra verslunardaga sem rutt hafi sér til rúms hér á landi. Þar vísar hann til svarts föstudags, netmánudags og dags einhleypra. „Þessir þrír dagar hafa allir verið mjög öflugir hér síðustu þrjú árin. Svarti föstudagurinn var til að mynda eins og Þorláksmessa. Þetta skilar sér þannig að stærri hluti jólaverslunarinnar en áður fer fram í nóvember. Við rekjum það beint til þessara þriggja daga.“