Una María Óskarsdóttir
Una María Óskarsdóttir
Eftir Unu Maríu Óskarsdóttur: "Ég tel að umræða um uppeldi barna og unglinga ætti að vera meiri því að uppeldishlutverkið er mikilvægasta hlutverk okkar í lífinu."

Þegar ég settist í þingsal Alþingis ákvað ég að nota strax tækifærið og tala um mál málanna; uppeldi barna og ungmenna. Hvernig við foreldrar og aðrir sem eigum samskipti við börn og unglinga getum haft áhrif á það hvernig þeim muni vegna í lífinu. Hvort þau fái trú á að þau séu einhvers virði og öðlist jákvæða sjálfsmynd eða hvort þau sæti ávítum og séu töluð niður í stað þess að þeim sé hælt fyrir það sem þau gera vel og hvött áfram með jákvæðum styrkingum.

Ég tel að umræða um uppeldi barna og unglinga ætti að vera meiri því að uppeldishlutverkið er mikilvægasta hlutverk okkar í lífinu. Það eru til leiðbeiningar sem hafa sýnt sig að gagnast vel við uppeldi og ég veit að margir foreldrar hafa kallað á aukna fræðslu og það er tími til kominn að uppeldisfræðsla verði almennari.

Það er merkilegt að fyrir tæpum 190 áraum, árið 1829, fjallaði Tímaritið Ármann á Alþingi um uppeldi þess tíma, þar sem bóndi einn lýsir uppeldi barna sinna og segir:

„Þegar þau hafa farið að stálpast og verða ódæl þá hef ég barið þau eins og fisk svo það er ekki mér að kenna að þau eru bæði þrá og stórlynd.“

Það þarf ekki að skoða þessi ummæli lengi til að sjá að það eru einmitt sterkar líkur á því að vegna þessa uppeldis hafi börn þessa bónda einmitt orðið þrá og stórlynd!

Nú til dags vita vonandi flestir foreldrar að haðneskjulegt uppeldi, refsingar, skilyrðislaus hlýðni, eftirlátssemi og afskiptaleysi hafa ekki góð áhrif í uppeldi. Mun heillavænlegra er að gefa börnunum sínum leiðbeinandi fyrirmæli, kenna þeim að fylgja fyrirmælum og hrósa þeim þegar við á, m.ö.o. beita leiðandi uppeldisaðferðum. Hinar aðferðirnar kallast skipandi eða refsandi uppeldishættir og svo afskiptalausir uppeldishættir.

Það verður að segjast eins og er að uppeldi og samskipti foreldra og barna, sem og samskipti barna við aðrar fyrirmyndir, svo sem íþróttaþjálfara, flokksstjóra í vinnu o.s.frv., hefur því miður ekki borið mikið á góma þegar rætt hefur verið um vaxandi vanda vímuefnaneyslu ungmenna, svo ekki sé talað um áhrif samfélagsmiðla, tónlistarmyndbanda og áhrif vinahópsins.

Í rannsóknum á uppeldisháttum foreldra hefur verið greint hvaða leiðir eru taldar skipta miklu máli til að draga úr líkum á vímuefnaneyslu, depurð og hegðunarvandkvæðum og hvaða leiðir geti orðið til þess að styrkja jákvæða sjálfsmynd, auka samskiptahæfni, efla trú á eigin færni og þar með efla góða líðan og geðheilsu.

Áður starfaði ég sem verkefnisstjóri ráðherranefndar um lýðheilsu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, setti á fót. Uppeldishættir skipta miklu máli til bættrar lýðheilsu og þess vegna er ein af aðgerðum lýðheilsustefnunnar sú að öllum foreldrum barna sex ára og yngri gefst kostur á að sækja uppeldisnámskeið við alla ung- og smábarnavernd um allt land.

Uppeldi barna og ungmenna er áhyggjuefni og það er mjög eðlilegt að foreldrar fari á uppeldisnámskeið og læri að ala upp börnin sín, eins og hundaeigendur fara á hundanámskeið til að hafa stjórn á hundinum sínum. Næstum daglega sjáum við umfjöllun í fjölmiðlum þar sem dregnar eru upp sláandi myndir af þessum vanda. Fyrirsagnirnar eins og þessar: Týndu börnin í verra ástandi en áður. Aldrei fleiri mál tengd heimilisofbeldi. Tugir gerenda leita til Heimilisfriðar. Sagt er frá geranda sem beitt hefur ofbeldi og vill leita sér aðstoðar því hann vill forðast að verða eins og foreldrar hans voru. Þá hafa rannsóknir sýnt að ofbeldi, vanræksla og misnotkun geti haft áhrif á sjúkdóma síðar á lífsleiðinni.

Þessar fréttir segja sína sögu um að bregðast þurfi við til að koma í veg fyrir að börnin okkar lendi í erfiðleikum á lífsleiðinni og gott uppeldi getur haft áhrif á það.

Höfundur er uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur og þingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Höf.: Unu Maríu Óskarsdóttur