Valdimar og vinir hans, Jón Sæmundur Auðarson og Einar Óli Einarsson, með mynd af Rúnari heitnum Júlíussyni rokkara og eðaltöffara.
Valdimar og vinir hans, Jón Sæmundur Auðarson og Einar Óli Einarsson, með mynd af Rúnari heitnum Júlíussyni rokkara og eðaltöffara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valdimar lærði ljósmyndun í Bournemouth and Poole College of Art and Design í Bretlandi á árunum 1994 til 1998 og kunni vel við sig. „Ég lærði margt úti, ekki síst af einum kennaranna, Jeff Drury.

Valdimar lærði ljósmyndun í Bournemouth and Poole College of Art and Design í Bretlandi á árunum 1994 til 1998 og kunni vel við sig. „Ég lærði margt úti, ekki síst af einum kennaranna, Jeff Drury. „Valdimar, take it to the edge,“ var hann vanur að segja við mig, „farðu fram á brúnina“, og því hollræði hef ég reynt að fylgja í listinni og lífinu.“

Í fríum heima á Íslandi bjó hann sér til verkefni sem hverfðist um að mynda þekkta Íslendinga heima hjá þeim eða í vinnunni.

Einn af fyrstu mönnunum sem Valdimar hugsaði til var Rúnar heitinn Júlíusson tónlistarmaður sem bauð hinum unga ljósmyndara heim til sín í Keflavík og fór myndatakan fram á neðri hæð hússins, þar sem Rúnar starfrækti upptökustúdíó. Eftir nokkrar pælingar fékk Valdimar þá hugmynd að fá Rúnar til að fara með bassann í baðkarið og standa þar, eins og hann væri á miðjum tónleikum. Myndin heppnaðist ákaflega vel og er sú frægasta sem eftir Valdimar liggur.

Ljósmynd varð að styttu

„Ég færði Rúnari myndina skömmu síðar og hann varð strax mjög hrifinn af henni; talaði um að setja hana jafnvel framan á næsta plötuumslag. Sú hugmynd virtist reyndar hafa dottið upp fyrir þegar ég fékk tækifæri til að sýna nokkrar myndir í Mogganum. Eftir það komst aftur skriður á málið; Þorfinnur Sigurgeirsson sem sá um þessi mál fyrir Rúnar hringdi akút í mig og vildi endilega skella myndinni á plötuumslag. Það var að sjálfsögðu velkomið og ég myndaði Rúnar fyrir nokkur fleiri umslög eftir þetta, þar á meðal fyrir plötuna Reykjanesbrautin en sú mynd var síðar höfð til viðmiðunar þegar gerð var stytta af Rúnari. Ég held að hún sé núna á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri. Ég gerði líka tvö tónlistarmyndbönd fyrir Rúnar með vini mínum Einari Óla Einarssyni lj´ósmyndara og okkur Rúnari varð ágætlega til vina. Hann var algjör öðlingur en á sama tíma lak töffaraskapurinn af honum.“

Valdimar man vel eftir annarri myndatöku af Rúnari. „Við Einar Óli vorum búnir að mála bakgrunn og útbúa sérstakan búning fyrir Rúnar. Allt leit vel út en virkaði þó ekki þegar á hólminn var komið. Hugmyndin skilaði sér ekki á mynd. Þá var annar vinur ræstur út, Jón Sæmundur Auðarson, sem gaf Rúnari svartan bol með hauskúpum og allt í einu steinlá þetta,“ segir Valdimar sem sjálfur klæddist samskonar bol fyrir myndatökuna vegna þessa viðtals. „Ég hef mjög gaman af tilvísunum.“

Vinnur enn í myndunum

Þess má geta að Valdimar er hvergi nærri hættur að vinna í ljósmyndunum sínum, enda þótt hann sjái þær ekki lengur. Hann fær aðstoð við myndvinnsluna og á dögunum færði hann Sæma Rokk mynd sem hann tók af honum um árið.

Myndin af Rúnari í baðkarinu hangir uppi á vegg hjá Valdimari í Hátúninu og þar er einnig málverk sem gesturinn veit engin deili á. „Þetta verk er eftir langömmu mína, Ólöfu Grímeu Þorláksdóttur. Hún byrjaði að mála um sjötugt og málaði til 93 ára aldurs. Seinni maður Ólafar var Sigursveinn D. Kristinsson, stofnandi Tónskóla Sigursveins. Hann fékk lömunarveiki ungur og stóð ásamt fleirum fyrir því að þetta hús var byggt. Ellefu eða tólf ára gamall fór ég með Sigursveini að Bessastöðum að hitta norska gesti. Sem barn bjó ég í þrjú ár í Noregi og talaði því málið. Það var mjög gaman að hitta Kristján Eldjárn forseta en hann var góður vinur afa míns, Valdimars Jóhannssonar bókaútgefanda.“

Var í Vandræðum

Valdimar myndaði ekki bara tónlistarmenn, til skamms tíma var hann sjálfur í hljómsveit, sem kallaðist Vandræði, og reis frægðarsól hennar hæst þegar lagið Tequila Blues hafnaði í þriðja sæti í lagakeppni Stjörnunnar sálugu veturinn 1987-88. Texti lagsins var eftir Steinar Kristjánsson söngvara, Valdimar spilaði á trommur, fyrrnefndur Jón Sæmundur Auðarson lék á munnhörpu og átti raunar að syngja líka en þurfti að hætta við það þegar hann fékk sýkingu í hálsinn eftir að ryð komst í munnhörpuna, Arnar Ástráðsson, núverandi heila- og taugaskurðlæknir í Danmörku, sem seinna gerði garðinn frægan með laginu Ástin mín eina í forkeppni Júróvisjón, lék á hljómborð, Végeir Hjaltason á bassa og Sigurður „Clapton“ á gítar.

Spurður um tónleikahald Vandræða glottir Valdimar við tönn. „Við tróðum einu sinni upp í tvítugsafmæli Halldórs Jörgenssonar vinar okkar – í bílskúrnum heima hjá honum.“

Á leið á McCartney-tónleika

Veturinn eftir fór Valdimar í rekstrarfræði á Bifröst og lék þá á trommur með hljómsveit skólans og tók meðal annars þátt í Bifróvisjón, þar sem hann lék undir hjá sigurvegaranum, Magnúsi Stefánssyni, síðar ráðherra. „Mig minnir að hann hafi tekið Angel of Harlem með U2.“

Eftir þetta kom Valdimar ekki nálægt trommuleik fyrr en hann flutti inn í Hátúnið. Festi þá kaup á forláta rafmagnstrommusetti og gekk til liðs við hljómsveit hússins sem heitir því ágæta nafni Úrkula vonar.

Úr því rætt er um tónlist vill svo skemmtilega til að nú um helgina er Valdimar staddur í Lundúnum, þar sem stefnan er tekin á tónleika með sjálfum Paul McCartney. Með í för eru aldavinur hans, Bjarnfreður Ólafsson lögmaður, og gamall bekkjarfélagi frá Bournemouth, Rob Cadman ljósmyndari, sem nokkrum sinnum hefur heimsótt Valdimar til Íslands – og er löngu kolfallinn fyrir landinu, eins og svo margir úr þeirri ágætu stétt manna. „Hann kom síðast í fimmtugsafmælið mitt ásamt „his lovely wife“, Christina Grater.“