Undangenginn dómur Hæstaréttar 6. desember síðastliðinn í máli útgerðarmanna vegna hlutdeildar í makríl gegn íslenska ríkinu er um margt áhugaverður þó að ekki hafi hann komið öllum á óvart.

Undangenginn dómur Hæstaréttar 6. desember síðastliðinn í máli útgerðarmanna vegna hlutdeildar í makríl gegn íslenska ríkinu er um margt áhugaverður þó að ekki hafi hann komið öllum á óvart.

Eflaust eru einhverjir sem munu líta á dóminn sem fordæmisgefandi og fara fram á skaðabætur og leiðréttingu. Í tilfellum útgerða sem fengu bæði úthlutað eftir veiðireynslu og úr potti myndi það einungis þýða að aflahlutdeildir færðust til innan sömu útgerðar. Eftir standa þá einungis smábátar en þeirra hlutur í heildaraflanum er afar lítill.

Til þess að setja dóminn í samhengi tel ég rétt að rifja upp forsögu þess að makríl var úthlutað til annarra en þeirra sem höfðu veiðireynslu. Það er vert að minnast einnig á það að kvótanum var í upphafi eða fram til ársins 2015 úthlutað til eins árs í senn. Árið 2009 var 11200 tonnum úthlutað til skipa en stór hluti þess afla var nýttur í bræðslu. Reglur um makrílveiðar voru býsna strangar árið 2010 markmiðið var að makríll væri nýttur til manneldis en ekki í bræðslu, tilgangurinn var að auka verðmæti og þar með tekjur þjóðarbúsins. Ekki mátti flytja afla á milli skipa ekki einu sinni í eigu sömu útgerðar. Ástandið í hafinu var þannig að margar útgerðir stórar og smáar sáu ekki fram á að hafa næg verkefni og líklega af þeim sökum þótti eðlilegt að fleiri fengju að spreyta sig á veiðum og vinnslu á þessu nýfengna gulli. Það var því gefin út reglugerð sem úthlutaði 15.000 tonnum til skipa sem ekki höfðu stundað þessar veiðar og 3.000 tonnum til smábáta. Þetta ár var heildarúthlutunin 112.000 tonn og hlutur smábáta því mjög lítill og varla það stór að hann hefði áhrif á afkomu stórútgerða.

Á þessum tíma var makríll vaðandi um allan sjó og flestum þótti eðlilegt að fá að veiða hann. Kunnáttuleysi og gullgrafaraæði varð að vísu til þess að ýmsir fjárfestu um of í tækjum og búnaði. Margar smábátaútgerðir höfðu litla veiðireynslu og einhverjir ekki hafið veiðar og því með enga veiðireynslu þegar varanleg aflahlutdeild var sett á 2015.

Þetta varð engu að síður mikil búbót fyrir marga þá sem ekki höfðu úr of miklu að spila og fiskvinnslur vítt og breitt um landið náðu að nýta búnað sinn betur.

Í dag stendur eftir spurningin hvert framhaldið verður. Sennilega verður ekki hægt að taka til baka varanlega aflahlutdeild sem komið var á 2015. Bæturnar sem þegar hafa verið dæmdar munu að sjálfsögðu koma við þjóðarbúið og enginn deilir um það að ákveðnar útgerðir urðu fyrir tjóni. Spurningin er hins vegar þessi hvort eðlilegt hefði verið að úthluta á sínum tíma óháð því hvernig fara ætti með hráefnið og hvort viðmiðunarárin hefðu ekki alveg eins átt að vera þau ár sem skip hófu veiðarnar fyrir alvöru. sigurdurpall@althingi.is

Höfundur er alþingismaður Miðflokksins NV.

Höf.: Sigurður Páll Jónsson