Niels Ryberg Hannesson Finsen Nóbelsverðlaunahafi fæddist í Þórshöfn í Færeyjum 15.12. 1860. Foreldrar hans voru Hannes Christian Steingrímur Ólafsson Finsen, cand.

Niels Ryberg Hannesson Finsen Nóbelsverðlaunahafi fæddist í Þórshöfn í Færeyjum 15.12. 1860. Foreldrar hans voru Hannes Christian Steingrímur Ólafsson Finsen, cand.juris, landfógeti og amtmaður í Þórshöfn í Færeyjum og síðar stiftamtmaður í Ribe í Danmörku, og k.h., Johanne Sophie Caroline Christine Finsen, f. Forman, dóttir Niels Ryberg Forman, exam.juris, landeignaráðsmanns hjá Classenske Fideicommiser á Falstri í Danmörku, og k.h., Elisabeth Christine Formann, f. Drewes, húsfreyju.

Hannes Ch. Steingrímur var sonur Ólafs Hannessonar Finsen, yfirdómara og kammerráðs í Reykjavík, og k.h., Marie Nicoline Finsen, f. Møller, húsfreyju.

Ólafur var sonur Hannesar Skálholtsbiskups Finnssonar, Skálholtsbiskups Jónssonar.

Systir Ólafs var Þórunn, móðir Steingríms Thorsteinssonar, skálds og rektors Lærða skólans, og Árna Thorsteinssonar, landfógeta í Reykjavík. Bróðir Hannesar var Óli Finsen, póstmeistari í Reykjavík, faðir Vilhjálms Finsen, fyrsta ritstjóra Morgunblaðsins.

Eiginkona Nielsar var Ingeborg Dorothea Finsen, f. Balslev, húsfreyja en börn þeirra sem upp komust voru Halldór Finsen, læknir í Espergærde i Danmörku; Gudrun, stúdent og húsfreyja í Kaupmannahöfn; Valgerda, cand.phil. og bókavörður í Gautaborg og Uppsölum.

Niels lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1882 og læknisprófi frá Hafnarháskóla 1890.

Niels rannsakaði áhrif sólarljóss á mannslíkamann og lækningakraft þess, stofnaði Ljóslækningastofnun í Kaupmannhöfn og heilsuhæli fyrir sjúklinga með hjarta- og lifrarveiki.

Niels hlaut prófessorsnafnbót árið 1898 og var heiðursfélagi fjölda lækna- og vísindastofnana, víða um heim. Hann var sæmdur Nóbelsverðlaunum í læknisfræði árið 1903.

Niels lést 24.9. 1904.