Listamaður Ein mynda Guðmundar Viborg sem Sigríður Svana Pétursdóttir fann á háalofti, þessi heitir Þorpið.
Listamaður Ein mynda Guðmundar Viborg sem Sigríður Svana Pétursdóttir fann á háalofti, þessi heitir Þorpið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Myndum á háalofti rekur Sigríður Svana Pétursdóttir sögu Guðmundar Viborg listamanns og fyrsta vélstjóra á Íslandi, konu hans og barna.

Í bókinni Myndum á háalofti rekur Sigríður Svana Pétursdóttir sögu Guðmundar Viborg listamanns og fyrsta vélstjóra á Íslandi, konu hans og barna. Sagan teygir anga sína vestan af fjörðum, suður í Borgarfjörð, til Reykjavíkur og vestur um haf, á átök fyrri heimsstyrjaldarinnar og aftur heim til Íslands.

Ég var á fjórtánda ári þegar amma Ingibjörg dó, árið 1966. Seinna sama ár fluttum við að Hólavelli. Í þessu stóra timburhúsi við Suðurgötuna bjuggu afi minn, Pétur, og amma Ingibjörg, föðurforeldrar mínir. Þar ólst upp stór hópur barna þeirra, átta talsins, og margir áttu þar griðastað um lengri eða skemmri tíma. Í kjallaranum bjó langafi minn, Guðmundur Viborg Jónatansson gullsmiður, til æviloka, 4. janúar 1936.

Það var ævintýri líkast fyrir 13 ára ungling að flytja í þetta mikla hús. Þrátt fyrir að faðir minn og systkin hans hefðu skipt búi var ýmislegt forvitnilegt skilið eftir á háaloftinu og foreldrum mínum gefið sjálfdæmi um hvað við það skyldi gera. Meðal þess var dágóður bunki af myndum sem Guðmundur Viborg langafi minn hafði málað. Ég hafði heyrt um, og séð, ýmsa muni sem hann hafði skorið út og smíðað úr gulli og silfri en þetta var alveg nýtt fyrir mér og stakk nokkuð í stúf við smíðisgripi hans. Myndirnar höfðu mikil áhrif á mig og öll þessi ár hefur þessi langafi minn verið sem skuggamynd á vegg sem hefur fylgt mér. Ýmsar athugasemdir fjölskyldunnar um hann gerðu ekki betur en draga upp lauslegar útlínur mannsins en voru nokkuð forvitnilegar. Listasmiður og bóhem en kynlegur karl var oftast svarið þegar ég spurði hvernig maður þetta hefði verið.

En myndirnar hans létu mig ekki í friði og snemma lét ég ramma inn nokkrar sem hafa fylgt mér alla tíð síðan. Árið 2012 sýndi ég Tryggva og Elínbjörtu í Gallerí Fold myndirnar og eftir það varð ekki aftur snúið. Sýning á myndum Guðmundar var opnuð í Gallerí Fold 14. október 2012 og í mars 2013 var sýningin opnuð í Ketilhúsinu á Akureyri og þaðan fór hún til Ísafjarðar. Mikill áhugi var á myndunum en það skal viðurkennt að ég gat litlu til svarað aðspurð um ævi þessa langafa míns. Í janúar 2016 fann ég kassa sem hafði geymst / gleymst. Kassinn var fullur af skrifum Guðmundar Viborg og þar með var teningunum kastað – ég yrði að kanna ævi hans eins og mér væri unnt, ef ekki fyrir mig sjálfa, þá fyrir afkomendur hans því ég reikna með að skyldmenni Guðmundar hafi fengið sömu svör og ég ef þau spurðu. Þessi skrif eru því tilraun til að kynna merkan mann, mann sem var afar misskilinn. Þessi vegferð mín um heimildirnar sýndi mér fram á að þarna var á ferð maður sem stóð fast á sínu og hafði heiðarleika og hjartagæsku í fyrirrúmi. Hann fékk aldrei að læra eins og hugur hans stóð til en af ótrúlegri elju tókst honum að tileinka sér vélstjórn og gullsmíðar af stakri snilld. Það er umhugsunarvert að hugleiða hvað hann hefði getað gert hefði hann haft tækifæri til að mennta sig í einhverri listgrein, eins og hann langaði til.

Rétt er að fara yfir þær heimildir sem ég notaði við að koma ævihlaupi Guðmundar, og þeirra hjóna, saman. Fyrir nokkru skrifaði föðurbróðir minn, Ásgeir Pétursson, um Helgu Bjarnadóttur, ömmu sína, konu Guðmundar Viborg, byggt á bréfum hennar til Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal, en hann var hálfbróðir Helgu. Ásgeiri hafði áskotnast afrit af þessum bréfum, en þau hafði hann fengið óbeint frá Játvarði Jökli Júlíussyni, sem skrifaði sögu Torfa í Ólafsdal. Ásgeir setti saman hefti sem unnið var úr bréfum Helgu og las ég þetta af nokkurri forvitni. En sá hængur var á að hann sagði lítið um Guðmund Viborg annað en það sem kynni hans af honum leyfðu, ásamt örfáum staðreyndum, enda má segja að hann væri að skrifa sögu Helgu, ekki Guðmundar. Þegar ég fór á Handritadeild Landsbókasafns til að skoða bréf Helgu, kynntist ég bréfasafni Torfa Bjarnasonar. Í safninu eru rétt um 11 þúsund bréf, frá fólki af öllum stigum og stéttum og af öllu landinu. Bera þau hjálpsemi og góðvild hans gott vitni. Í þessu stóra safni eru, auk bréfa frá Helgu og Guðmundi Viborg, þó nokkur bréf frá ættingjum Helgu og Torfa. Þarna urðu kaflaskil og varð til þess að bæði bættist töluvert við þekkinguna og að mér fannst nú kominn nokkur grundvöllur fyrir því að rannsaka ævi Guðmundar nánar.

Við flokkun og yfirlestur „miðasafns“ Guðmundar í kassanum gleymda varð mér ljóst að ekki var margt þar að finna af beinum heimildum um ævi hans en það sem ég fann verður nýtt svo sem hægt er. Þótt safnið sé töluvert að vöxtum er það að langstærstum hluta til kveðskapur sem lýsir hugarfari hans og afstöðu til ýmissa mála, aðallega pólitískra, trúarlegra og þjóðernisrómantískra og er að öllum líkindum flest skrifað eftir árið 1928, þegar hann flutti á Hólavöll. Það má þó segja að vísur og ljóð Guðmundar séu kapítuli út af fyrir sig. Þegar lagt var upp í þessa vegferð var einungis ætlunin að kanna líf Guðmundar, Helgu og barna þeirra. Eftir því sem á leið verkið varð ljóst að kvæðin voru sterkur þáttur í lundarfari Guðmundar og þau, frekar en margt annað, gefa lesanda innsýn í hvernig maður hann var. Þar sést greinilega hvernig skapferli hans mildaðist með árunum og hann endaði ævina sáttur við lífið og tilveruna. Nokkur kvæði og ljóð Guðmundar fá því að fljóta með en tekið skal fram að þau kunna sum að vera eitthvað á skjön við góða bragarhætti þar sem erfitt er að lesa úr skrift hans og fyrir kom að nauðsyn var á að skálda í eyður.

Myndir og útskurður Guðmundar segja sína sögu um listfengi hans en rétt er að láta myndir tala sínu máli þar um.

Munnlegar heimildir eru af skornum skammti, enda langt um liðið síðan þeir atburðir, sem lýst er hér á eftir gerðust en Guðmundur lést, eins og áður sagði, í janúar 1936. Þegar ég hóf þessi skrif voru þrjú af barnabörnum Guðmundar, sem bjuggu með honum á Hólavelli, börn Ingibjargar yngstu dóttur hans, enn á lífi, áðurnefndur Ásgeir Pétursson, sem var um fermingu þegar Guðmundur dó, Þorbjörg Pétursdóttir, sem var á áttunda ári og faðir minn, Pétur, sem var á fimmta ári 1936. Faðir minn lést 2. mars 2017. Hann hafði áður lagt ýmislegt til verksins. Ásgeir og Þorbjörg muna afa sinn vel og fékk ég heilmiklar upplýsingar frá þeim. Þá mundi faðir minn ýmislegt sem móðir hans sagði honum og Björk E. Jónsdóttir, seinni kona hans hefur lagt ýmislegt gott til.

Eitt barnabarn enn er á lífi, Ingibjörg Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Boga Viborg Guðmundssonar, og þó hún hafi ekki verið fædd þegar Guðmundur dó fékk ég miklar upplýsingar frá henni, komnar frá foreldrum hennar. Kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir.

Aðrar heimildir eru sóttar í manntöl, prestþjónustubækur og opinber gögn, en eins og oft vill verða um alþýðufólk eru heimildir af skornum skammti.

Eitt og annað var að finna af staðreyndum um fæðingar, dauða, og búsetu og með því að kanna staðhætti á hinum ýmsu búsetustöðum Guðmundar, sem og konu hans, Helgu Bjarnadóttur, var unnt að gera sér einhverja mynd af lífi þeirra. Ekki var lagst í miklar rannsóknir um framættir Guðmundar en lítillega getið þess sem til er á prenti. [...]

Spurningar sem leitað verður svara við eru ekki flóknar. Hver var Guðmundur Viborg, hvernig vatt ævi hans fram og hvernig höfðu þeir einstaklingar sem næst honum stóðu áhrif á lífshlaup hans? Þá verður einnig kannað hvernig konu hans og börnum reiddi af í lífsins ólgusjó.