[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólympíumót skákmanna 16 ára og yngri, sem lauk í borginni Konya í Tyrklandi í byrjun desember, er kröfuharðasta verkefni sem liðsmenn íslensku sveitarinnar hafa tekið að sér á þessu ári og kemur þar margt til.

Ólympíumót skákmanna 16 ára og yngri, sem lauk í borginni Konya í Tyrklandi í byrjun desember, er kröfuharðasta verkefni sem liðsmenn íslensku sveitarinnar hafa tekið að sér á þessu ári og kemur þar margt til. Þetta ólympíumót er haldið ár hvert og við vorum síðast með í Slóvakíu fyrir tveimur árum og náðum þar ágætum árangri. Fyrirkomulagið er þannig að ein stúlka a.m.k. er í hverri sveit og hún verður að tefla þrjár skákir hið minnsta. Nansý Davíðsdóttir, sem er 16 ára gömul, var auðvitað fyrsta val okkar en árstíminn hentaði henni ekki vel vegna prófa í MR og Batel Goitom, sem er 11 ára gömul, kom í hennar stað, stóð sig vel en gat ekki teflt til jafns við piltana í sveitinni sem allir eru talsvert hærri að elo-stigum.

Með Batel í sveit í borðaröð voru Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem, Birkir Ísak Jóhannssson og Arnar Milutin Heiðarsson. Sá síðastnefndi kom í liðið á síðustu stundu þegar ljóst var að hvorki Alexander Oliver Mai né Óskar Víkingur Davíðsson gátu teflt í Konya og sýndi baráttuvilja og gott hugarfar.

Fyrirfram var sveitinni raðað í 33. sæti af 48 sveitum og hafnaði í 34.-38. sæti sem sem er eilítið lakara en ætlaður árangur.

En þrátt fyrir allt og með hliðsjón af því að allir í sveitinni, að Birki Ísak undanskildum, voru 15 ára eða yngri og eiga keppnisrétt aftur að ári var megintilgangurinn sá að öðlast reynslu á þessum vettvangi. Ein niðurstaðan var sú að engin sveit var auðveld viðureignar, önnur að elo-stig voru nánast ómarktæk viðmiðun og mikil gæði hjá þeim bestu, t.d. sigurvegurunum frá Úsbekistan, Indlandi, Kína og Íran.

Greinarhöfundur var fararstjóri og liðsstjóri í Tyrklandi. Það var athyglisvert að þrátt fyrir erfitt gengi, seinheppni og mistök í tímahraki þá óx mönnum ásmegin eftir því sem leið á mótið. Það átti ekki síst við hinn unga Stephan Briem sem tefldi á 2. borði og vann sinn besta sigur í næstsíðustu umferð í viðureigninni við Alsír:

Ól. 16 ára og yngri; 8. umferð:

Nes. Boubendir – Stephan Briem

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Be2 e5 7. Rb3 Be7 8. Be3 Be6 9. 0-0 Rbd7 10. Kh1 b5 11. f3 0-0 12. a3

Þessi uppbygging hvíts að leika – f3 og – a3 í Sikileyjarvörn hefur aldrei þótt sérstaklega beitt en þó getur reynst erfitt fyrir svartan að skapa sér færi.

12.... Dc7 13. Dd2 Hfd8 14. Rd5 Bxd5 15. exd5 Rb6 16. Bxb6 Dxb6 17. Bd3 a5 18. a4 b4 19. Bb5 g6 20. Had1 Rh5 21. g3 f5 22. Dd3 Bg5 23. Hde1 Hf8 24. He2 Ha7 25. Bc6 Bh6 26. Db5 Dd8 27. Rd2 g5?!

Eftir þreifingar á báðum vængjum þar sem svartur hefur haldið vel á spilunum hefði Stephan leikið best 27.... Bxd2 28. Hxd2 f4! 29. g4 Rf6 sem hótar 30.... e4. En hann vildi fá sókn strax.

28. Rc4 g4 29. fxg4

Hann hefði betur sóst eftir drottningaruppskiptum og leikið. 29. Db6.

29.... fxg4 30. Hxf8+?

Uppskipti á forsendum andstæðingsins eru oft varasöm. Best var 30. Hef2 og hvíta staðan er ekki lakari.

30. ... Dxf8 31. He1

Tapar en 31. Kg1 er svarað með 31.... Hf7 o.s.frv.

31.... Df3+ 32. Kg1 Hf7 33. Db6

Valdar f2-reitinn en nú grípur riddarinn inn í.

33.... Rxg3 34. hxg3 Dxg3+ 35. Kh1 Dxe1+ 36. Kg2 Df1+ 37. Kg3 Hf3+ 38. Kh4

– og gafst upp um leið því næst kemur 38.... Dh3 mát.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is