Höfundurinn Sigríður Ólafsdóttir var dómari og skrifar nú fyrir börnin.
Höfundurinn Sigríður Ólafsdóttir var dómari og skrifar nú fyrir börnin. — Morgunblaðið/Eggert
Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Sagan um tröllstelpuna Rípu hafði lengi blundað í huga Sigríðar Ólafsdóttur, sem hefur starfað sem héraðsdómari drjúgan hluta ævinnar, en er nú komin á eftirlaun.

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Sagan um tröllstelpuna Rípu hafði lengi blundað í huga Sigríðar Ólafsdóttur, sem hefur starfað sem héraðsdómari drjúgan hluta ævinnar, en er nú komin á eftirlaun. Nú hefur hún sent frá sér sína fyrstu skáldsögu, Rípu , en hún fjallar um vináttu tröllastelpunnar Rípu og mannsbarnsins Lóu. Persónurnar urðu til löngu áður en sagan rann út úr pennanum, að sögn Sigríðar.

Fór að segja börnunum sögur

„Rípa og Lóa verða fyrst til í sögum sem ég fer að segja börnunum mínum þegar þau eru lítil. Ég byrjaði á því að lesa fyrir þau fyrir svefninn en mér leiddist að lesa sömu bækurnar aftur og aftur þannig að ég sofnaði yfirleitt á undan þeim. Þá fór ég að segja þeim sögur í staðinn. Þau vildu heyra ævintýri og ég bullaði auðvitað mikið um allt mögulegt, en það voru sögurnar um Rípu og Lóu sem þau vildu heyra aftur og aftur,“ segir Sigríður.

Þegar börn Sigríðar voru uppkomin hvöttu þau hana til að setja söguna á blað en það var löngu eftir það sem hugmynd um að fá söguna gefna út kviknaði. Við það breyttist sagan og lengdist. „Þó leið töluverður tími þar til ég lét þá hugmynd verða að veruleika.“

„Rípa er einföld persóna, ljúf og góð. Hún kemur úr tröllaheimi sem er afar frábrugðinn mannheimum. Tröllin eru nægjusöm og sátt við sitt, og lífið líður áfram hjá þeim eins og það hefur gert í gegnum aldirnar. Rípa kynnist Lóu fyrir tilviljun og með þeim tekst vinátta, sem leiðir til þess að Rípa fær að kynnast mannabyggðum og taka þátt í lífi barnanna í þorpinu hennar Lóu og lendir þar í ýmsum uppákomum. Við kynni sín af mannheimum vakna hjá Rípu ýmsar spurningar og efasemdir um tilbreytingarleysið í lífi tröllanna. Tilbreytingarleysið er þó í hugum tröllanna grundvöllurinn að tilveru þeirra og þau óttast þau áhrif sem kynni Rípu af mannfólkinu geti haft á líf tröllanna,“ segir Sigríður, þegar hún útskýrir söguþráð bókarinnar.

„Alvörusaga“

„Þessi saga er fyrir sæmilega læs börn, 7 til 8 ára og upp úr, en þetta er töluverður texti,“ segir Sigríður og bætir við að hún hafi fengið skemmtileg ummæli um bókina á dögunum frá átta ára barni sem sagði við ömmu sína: „Amma, þetta er sko alvörusaga!“

Bókin er fallega myndlýst af Freydísi Kristjánsdóttur, sem gerir það að verkum að yngri börn geta notið hennar líkt og þau eldri. Að finna rétta teiknarann fyrir bókina tók hátt í tvö ár, að sögn Sigríðar, en biðin var svo sannarlega þess virði. Freydís Kristjánsdóttir hafi unnið myndirnar af mikilli list og hafi lagt mikla vinnu í bókina sem skili sér í einstaklega vel gerðum myndum.

Sigríður segir bókina hafa fengið góðar viðtökur. „Þetta er ævintýrabók sem allir, sem hafa gaman af ævintýrum, ættu að geta notið. Fjögurra ára sonardóttir mín fór til dæmis með hana í leikskólann og leikskólakennarinn hefur verið að lesa bókina sem framhaldssögu og þau sitja og hlusta. Þá fór ellefu ára dótturdóttir mín með hana í skólann sinn.“

– Hver er boðskapur sögunnar?

„Ég játa það alveg að ég var alls ekki með neinn sérstakan boðskap í huga þegar ég skrifaði bókina. Ég hef reyndar heyrt frá fólki að því finnist bókin hafa að geyma góðan boðskap en boðskapur kemst kannski best til skila þegar maður er ekki meðvitað að reyna að koma honum á framfæri,“ svarar Sigríður. Hún bætir við að ef boðskap sé að finna í sögunni þá sé það ánægjulegt og af hinu góða.