Tónlist Magnús Þór Sigmundsson lagahöfundur.
Tónlist Magnús Þór Sigmundsson lagahöfundur.
Einhver besti þáttastjórnandi íslensku ljósvakamiðlanna að mínu mati er Óli Palli á Rás 2. Ekki síst þegar hann fær þekkt tónlistarfólk í viðtöl, íslenskt eða erlent, og rekur úr því garnirnar.

Einhver besti þáttastjórnandi íslensku ljósvakamiðlanna að mínu mati er Óli Palli á Rás 2. Ekki síst þegar hann fær þekkt tónlistarfólk í viðtöl, íslenskt eða erlent, og rekur úr því garnirnar. Eitt það eftirminnilegasta í seinni tíð er viðtal við snillinginn Magnús Þór Sigmundsson í Rokklandi snemma í nóvembermánuði. Ég heyrði fyrst hluta þess á sunnudegi og síðan viðtalið í heild sinni á þriðjudagskvöldinu á eftir.

Magnús sagði þar hispurslaust og af einlægni frá lífshlaupi sínu og dró ekkert undan, hvort sem það var tímabil hassreykinga eða erfiðar stundir í fjölskyldulífinu. Meðal annars sagði Magnús frá því að hann hefði samið perluna „Ísland er land þitt“ á geðdeildinni, sem starfsmaður, og það hefði verið eitt þriggja laga sem hann samdi á einu og sama kvöldinu þar. Textann sjálfan samdi Margrét Jónsdóttir árið 1954, svo því sé haldið til haga.

Áhugann fyrir því að gera „Ísland er land þitt“ að þjóðsöng bar á góma í spjallinu og þar sem ég er mikill áhugamaður um það er þetta því kjörið tækifæri til að koma þeim boðskap enn og aftur á framfæri: Förum nú að skipta um þjóðsöng!

Víðir Sigurðsson