Það er ekki sama hvernig er talað í Kringlunni, börnin geta orðið vandræðaleg.
Það er ekki sama hvernig er talað í Kringlunni, börnin geta orðið vandræðaleg. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru hlutir almennt „geggjaðir“ falli þeir í kramið en annars „krípí“ ef þeir eru ekki að gera sig.

Undanfarið hefur það æ meira runnið upp fyrir mér að ég og sonur minn, og eflaust krakkar af hans kynslóð sem nú fylla grunnskóla landsins, höfum ólíka sýn á aldur. Honum finnst mamma sín (sem tekið skal fram að er ekki orðin fertug) einfaldlega tilheyra þeim hópi sem hann kallar „gamalt fólk“. Lítið við því að gera víst, svona er bara lífið. Gamalt fólk gerir víst alls konar hallærislega hluti, til dæmis getur verið mjög vandræðalegt að fara með því í Kringluna, ekki síst vegna hættu á því að það taki upp á því að gera eitthvað vandræðalegt, eins og að knúsa afkvæmin, sem á víst alls ekki að gera á opinberum vettvangi. Að gefa sig á tal við ókunnugt fólk á förnum vegi er líka eitthvað sem bara „gamalt fólk“ gerir og fer mjög fyrir brjóstið á grunnskólanemanum. Ekki málið.

Fyrr á árinu var birt í þessu blaði vegleg úttekt þar sem farið var ofan í saumana á ólíku orðfæri kynslóðanna. Skoðuð voru orð sem krökkum og unglingum þóttu í eina tíð hæfa til að lýsa hlutum en þykja út úr korti nú. Enginn er púkó lengur, það er orð sem tilheyrir kynslóð foreldra minna. Ekki heldur er mikið um það að fólk segi „glætan, spætan“ lengur eins og tíðkaðist fyrir ekki svo löngu.

Ný kynslóð finnur sér nýtt orðfæri og ný orð til að lýsa umhverfi sínu, því sem þau dást að og því sem fer fyrir brjóstið á þeim. Nú eru hlutir almennt „geggjaðir“ falli þeir í kramið en annars „krípí“ ef þeir eru ekki að gera sig.

Ó-ending á ýmsum orðum eins og að segja „glæsó“ í staðinn fyrir glæsilegt var afgreidd á dögunum sem „mjög næntís“ og mamma „gamla“ vinsamlegast beðin um að láta af slíku tali. Að minnsta kosti láta það ekki heyrast mjög víða, það gæti orðið vandræðalegt fyrir alla nærstadda.

En þegar ég var djúpt sokkin í vorkunnsemi minni yfir þeim örlögum að vera talin gömul náði ég að rifja upp að mér þóttu foreldrar mínir ekki sérlega ungir þegar þeir voru á mínum aldri. Bara rígfullorðið fólk eiginlega þegar þau voru rétt að detta í fertugt. Þá rann upp fyrir mér að þótt orðnotkun og orðaforði breytist með tímanum þá breytist afstaðan lítið. Fullorðið fólk er yfirleitt miklu eldra í augum barna en í eigin huga. Börn hafa líka gjarnan þann hátt að einfalda hlutina, og það er langeinfaldast að flokka fólk sem ungt eða gamalt. Og það er engin skömm að því að lenda í síðari flokknum. Það er víst alltaf hægt að vera ung í anda ef viljinn er fyrir hendi.