Svava Sófusdóttir fæddist í Zeuthenshúsi á Eskifirði 3. mars 1934. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Seyðisfirði 4. desember 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Oddur Sófus Eyjólfsson, f. 20.1. 1892, d. 21.9. 1971, og Þórdís Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 10.9. 1903, d. 22.2. 1992. Systkini Svövu voru María Kristín, f. 23.6. 1923, d. 7.5. 1956, Friðrik, f. 10.6. 1927, d. 4.1. 218, maki Ingunn Björgvinsdóttir, og Hákon Viðar, f. 31.3. 1936, maki Sigrún Valgeirsdóttir.

Svava ólst upp á Eskifirði og lauk þaðan venjulegu skyldunámi. Hún vann öll venjuleg störf sem unglingum buðust á þeim árum, s.s. barnagæslu, störf í frystihúsi, síldarsöltun o.fl. Snemma varð hún afgreiðslustúlka í Markúsarbúð á Eskifirði og gegndi því starfi í nokkur ár. Á vetrarvertíðum 1953 vann hún í frystihúsinu „Litlu milljón“ í Keflavík. Þar kynntist hún manninum sem síðar varð hennar lífsförunautur, Jóhanni Birni Sveinbjörnssyni, f. 18.2. 1934.

Veturinn 1957 bjuggu þau í Reykjavík, í prentarablokkinni á Nesvegi 7. Þann vetur vann hún um nokkurt skeið í eldhúsi Heilsugæslustöðvarinnar og síðan við afgreiðslu í versluninni Vaðnesi við Klapparstíg. Um mitt sumarið fluttu þau aftur á heimaslóðir austur á land til Seyðisfjarðar.

17. júní árið 1958 gekk hún að eiga Jóhann Björn Sveinbjörnsson, f. 18.2. 1934. Á Seyðisfirði bjó Svava síðan til æviloka. Þau hjónin eignuðust þrjá syni, Sveinbjörn Má, f. 27.11. 1957, hans kona er Margrét Gunnlaugsdóttir, f. 15.11. 1958. Börn þeirra eru Nína Ýr, f. 22.3. 1977, Jóhann Björn, f. 13.11. 1982, og Edda Sif, f. 4.2. 1989. Sófus Þór, f. 14.6. 1963, d. 13.1. 2017, og Jóhann Björn, f. 5.6. 1967. Hans sonur er Baldur Már, f. 17.6. 1996. Móðir Baldurs Más er Þóra Þorsteinsdóttir, f. 5.12. 1977.

Á Seyðisfirði vann Svava hjá Síldarverksmiðju ríkisins við frágang framleiðslunnar, auk þess sem hún greip í störf mötuneytis fyrirtækisins. Á þessum árum var síldarævintýrið í hámarki og vann hún þá einnig drjúgt við síldarsöltun.

Svava hóf störf við Sjúkrahús Seyðisfjarðar sem gangastúlka árið 1975 og starfaði þar yfir 30 ár. Hún var einstaklega lagin við allt sem að höndum hennar kom og sá árum saman um föndur með vistmönnum, sem árlega sýndu árangurinn.

Hún hafði mikla ánægju af spilamennsku og stóð fyrir spilakvöldum áhugamanna árum saman einu sinni í viku, eða allt þar til heilsuna þraut. Hún var félagi í félagi eldra fólks á Seyðisfirði og spilaði þar venjulega tvisvar í viku með félögum sínum.

Útför Svövu verður gerð frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 15. desember 2018, klukkan 14.

Elsku hjartans Svava.

Nú hvílir dimmur skuggi sorgar yfir Garðarsvegi 6. Eftir sextíu og tveggja ára sambúð er erfitt að skiljast að. En svona er það. Það er víst ákveðið og við ráðum engu um það.

Nú streyma minningarnar að, svo hratt og svo margar, að allt rennur saman í harðan hnút sem erfitt er að leysa. En fyrst ég nefni hnút, þá veit ég enga sem auðveldar átti með að leysa og rekja hnúta, því allt sem í þínar hendur kom, hvort sem var garn eða gler, kom úr þínum höndum í betra ástandi. Nákvæmni þín og snyrtimennska var sérstök. Satt að segja hafðir þú meiri ánægju af föndri en fjasi. Enda varstu sjaldan margmál, en sagðir hreinskilnislega skoðanir þínar. Þú gast líka skotið föstum skotum sem hittu vel í mark ef svo bar undir. Þau skot minntu mig stundum á langafa þinn, Jón Ólafsson ritstjóra. Hugur þinn stóð þó nær langafabróðurnum, Páli Ólafssyni. Þú barst líka sterkan svip Selsættarinnar á Eskifirði. Róandi áhrif þín á börn þekktum við vel, t.d. með einföldu föndri. Já, mín kæra, þú tróðst aldrei neinum um tær, en lést heldur aldrei troða á þínum.

Ófáar voru stundir þínar í föndri með vistmönnum á heilsugæslustöðinni á Seyðisfirði.

Auk áhuga þíns á föndri, hafðir þú ánægju af spilamennsku, og stóðst fyrir spilakvöldum í félagsheimilinu einu sinni í viku, meðan kraftar entust. Spilatíma í félagi eldra fólks á Seyðisfirði sóttir þú vel. Betur en rabbstundirnar. Sagðist litla ánægju hafa af því að sitja og „mala“.

Þú varst betri en enginn þegar við stóðum í að byggja okkar framtíðarbústað. Stundum fannst mér þú heldur um of vinnuhörð við sjálfa þig. Já og mig líka. Enda varstu bæði sterk og svo vinnusöm, að mér fannst sem þú hefðir verið þræll í fyrra lífi, og teldir þig þurfa að halda því áfram.

Á þessu byggingaárabasli okkar munaði drjúgt um það sem þú vannst inn fyrir heimilið. Þú ein fjármagnaðir kaupin á eldhúsinnréttingunni frá frænda þínum Gesti Janusi Ragnarssyni, með vinnu þinni í síldarbræðslunni hér á Seyðisfirði, og síldarsöltun. Sú eldhúsinnrétting stendur enn fyrir sínu, 62 árum síðar. Á þessum 62 árum okkar hefur hamingjan ráðið ríkjum. Við eignuðumst þrjá syni, Sveinbjörn Má, Sófus Þór og Jóhann Björn. Stór skuggi lagðist þó yfir okkur 13. janúar 2017, þegar Sófus var rifinn frá okkur yfir á annað tilverustig, aðeins 54 ára.

Alltaf skín sólin þó á bak við skýin. Hamingjan ríkir áfram með afkomendunum. Umhyggja fyrir öllum þínum var einstök. Svava mín, nú eru dökkir dagar framundan því þú varst:

Ljós sem lýsti veginn minn

lánið mitt og styrkur.

Engan frið ég lengur finn

og framundan er myrkur.

Elsku ljúfa. Eftir langa og góða sambúð er sárt að skilja. En örlög ráða. Þótt þú sért nú horfin sjónum okkar yfir á aðrar slóðir, þar sem vinir bíða í varpa, ertu hjá okkur, og verður áfram.

Ég kveð þig með orðum sem þú heyrðir oft frá mér:

Þú ert alltaf elskuleg

efling vona minna.

Í eilífðinni ætla ég

aftur þig að finna.

Við þökkum fyrir allt og allt og óskum þér góðrar ferðar á vit eilífðarinnar.

Jóhann Björn

Sveinbjörnsson.

Það eru 38 ár síðan ég kynntist tengdamóður minni, Svövu, sem var alltaf kölluð Lilla af sínum nánustu. Margs er að minnast þegar þegar ég lít til baka.

Lilla var fyrirmyndarhúsmóðir og mikil listakona. En hún var ekki allra og hleypti ekki mörgum að sér.

Hún saumaði, prjónaði, heklaði, gerði kort, glerjaði, ræktaði rósir og svo mætti lengi telja. Það liggja ótal listaverk eftir hana víða um heiminn þar sem hún rak sumarmarkað í fjölmörg sumur ásamt vinkonum sínum. Þar seldu þær sitt eigið handverk. Einnig fyrirfinnast ótal önnur listaverk eftir hana sem fáir hafa séð. Hún elskaði að prjóna og sauma á barnabörnin fjögur. Þegar þau voru í pössun var hún alltaf að dunda með þeim. Þau höfðu mikla matarást á ömmu sinni og þar komu lummur og heimagerða múslíið sterkt inn. Síðar fengu langömmubörnin sömu matarást á henni og nutu samvista við hana í ýmiss konar föndri.

Hún var ákaflega heimakær, lengst fór hún til Færeyja og fóru þau hjónin nokkrar ferðir þangað.

Lilla fæddist á Eskifirði en flutti til Seyðisfjarðar fyrir 62 árum, meiri Seyðfirðingi hef ég ekki kynnst. Hún unni bænum og vildi honum allt hið besta.

Mikill var missir þeirra hjóna þegar þau misstu son sinn Sófus fyrir rúmum tveimur árum.

Við erum þakklát fyrir þá samveru og aðstoð sem við gátum veitt henni í veikindunum. Það er mér mikils virði að við hjónin gátum verið til staðar fyrir hana.

Elsku Jóhann, missir þinn er mikill, á svo stuttum tíma.

Ég votta öllum ástvinum hennar dýpstu samúð.

Hvíl í friði, elsku Lilla.

Þín tengdadóttir,

Margrét (Magga).

Það er aðfangadagur og við erum mætt, eins og alltaf, á Garðarsveginn rétt fyrir klukkan hálfsex. Ilmurinn sem tekur á móti okkur er dásamlegur. Uppáhaldsmáltíð ársins er í vændum. Amma fagnar okkur, lambalærið búið að malla í marga klukkutíma í ofninum og sósan er að verða klár. Inni í stofu er dúkað borð, sparistellið skartar sínu fegursta, rauðu jólaglösin komin á borðið og servíetturnar í fallegu broti. Í holinu er útvarpið lágt still, beðið eftir að kirkjuklukkurnar hringi inn jólin. Á meðan við bjuggum á Seyðisfirði vorum við alltaf í jólaveislu hjá ömmu og afa á aðfangadag. Síðustu árin hafði amma alltaf jólamat þegar við komum í heimsókn, alveg sama á hvaða tíma árs það var. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir það, enda vekur jólamaturinn virkilega góðar æskuminningar, minningar þar sem amma var í aðalhlutverki og hvert smáatriði úthugsað.

En amma var ekki bara snillingur í veisluföngum. Hún var sérlega hæfileikarík þegar kom að handavinnu. Það var einhvern veginn ekkert sem amma gat ekki útbúið, prjónað, heklað, föndrað, glerjað, saumað og svo mætti lengi telja. Hún hafði alveg einstakt lag á því að búa til fallega hluti.

Hún var líka þolinmóðasti handavinnukennari minn. Minningarnar um handavinnustundir við eldhúsborðið eru ófáar og alltaf var amma róleg, alveg sama hversu mikla vitleysu ég var komin í. Það var ómetanlegt að geta kíkt til ömmu með handavinnuna úr skólanum, það þurfti oft að bjarga þeirri handavinnu.

Amma rifjaði gjarnan upp söguna þegar við hittumst í fyrsta skipti. Það var sumarið 1980 þegar við mamma fluttum austur á Seyðisfjörð. Við hittumst úti í búð, ég labbaði til hennar með kexpakka og setti í körfuna hjá henni. Hún skilaði pakkanum en ég hélt víst áfram að setja kexpakka í körfuna hennar. Síðar sama ár byrjuðu mamma og pabbi saman. Fyrst um sinn sagðist ég ekki þurfa aðra ömmu, ég ætti eina ömmu í Kópavogi. En það breyttist nú fljótt.

Það er af ýmsu að taka úr minningasjóðnum þegar maður hefur verið eins lánsamur með ömmu og við systkinin vorum. Upp í hugann kemur fyrst og fremst þakklæti fyrir góðar stundir, notalega samveru og gestrisni sem á enga sína líka. Minning um afskaplega góða konu mun lifa með okkur.

Hvíl í friði, elsku amma Lilla.

Nína Ýr Nielsen.