Tveir góðir saman Gunnlaugur Einarsson kveður hefilinn eftir dygga þjónustu í nær 26 ár frá Vopnafirði.
Tveir góðir saman Gunnlaugur Einarsson kveður hefilinn eftir dygga þjónustu í nær 26 ár frá Vopnafirði. — Ljósmynd/Magnús Jóhannsson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Vegagerðin heldur úti víðtæku eftirlitskerfi og þar gegna hefilstjórar á 22 vegheflum mikilvægu hlutverki. Einn þeirra er Gunnlaugur Einarsson, flokkstjóri og vélamaður á Vopnafirði.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Vegagerðin heldur úti víðtæku eftirlitskerfi og þar gegna hefilstjórar á 22 vegheflum mikilvægu hlutverki. Einn þeirra er Gunnlaugur Einarsson, flokkstjóri og vélamaður á Vopnafirði. Hann hefur staðið vaktina og heflað vegi í tæplega þrjá áratugi og man tímana tvenna.

Fyrir skömmu skilaði Gunnlaugur af sér hefli, sem hann hafði unnið á undanfarin nær 26 ár, og fékk annan um fimm árum yngri í staðinn. Hann segir að með aukinni vegklæðningu hafi heflunin eðlilega minnkað og sérstaklega hafi orðið mikil breyting á þegar nýr vegur var lagður til Vopnafjarðar fyrir nokkrum árum.

„Gamli hefillinn bilaði lítið fyrr en síðasta vetur, þegar skiptingin fór í honum,“ segir Gunnlaugur. „Þetta var ágætis eintak.“ Nýr hefill var settur niður í Fellabæ og fékk Gunnlaugur hefilinn sem var þar áður.

Víða til sveita er hefillinn eðlilegt framhald af dráttarvélum. „Ég er alinn upp í sveit, var alltaf á dráttarvélum, og þegar hér vantaði hefilmann skellti ég mér í starfið, en ég hafði reynslu af hjólaskóflum og sumarvinnu hjá verktökum,“ segir Gunnlaugur um ævistarfið. Hann er eini hefilmaðurinn á Vopnafirði, en Ingvar Eðvaldsson, verkstjóri hans, hleypur í skarðið ef á þarf að halda.

Snjóléttara nú en áður

Þegar malarvegir voru helsta tengingin þurfti að hefla þá á sumrin og ryðja á veturna en Gunnlaugur segir að nú felist vinnan einkum í sumarheflun á malarvegum og eftirliti og viðhaldi stika á þessum árstíma. „Áður var maður aðallega að moka snjó á veturna en sú vinna hefur minnkað mikið, ekki síst vegna breyttra vega auk þess sem mun snjóléttara hefur verið síðari ár,“ segir hann. Bætir við að vörubílar séu einkum notaðir við snjómokstur og svo snjóblásarar.

Í góðum félagsskap

Gamli vegurinn til Vopnafjarðar lá um brattar brekkur í Bustarfellinu. „Þá þurfti ég oft að draga flutningabíla, sem voru vanbúnir, og rífa svell, en nú er nánast ekkert um þetta,“ segir Gunnlaugur. „Við sjáum fáa ferðamenn hér niðri á Vopnafirði á veturna, þeir eru bara á hringveginum, en það er helst fyrst á haustin, sem veita þarf ökumönnum á vanbúnum bílum aðstoð.“

Dagurinn byrjar snemma, því kanna þarf ástand vega áður en almenn umferð hefst. „Það er gott að vera svona einn með sjálfum sér,“ segir Gunnlaugur. „Ég er í góðum félagsskap og þekki félagann.“