— Morgunblaðið/Hari
Ertu alltaf kölluð Ebba? Já, ég er eiginlega alltaf kölluð Ebba, sjaldan Þuríður, nema þegar ég er skömmuð. Fólk er alltaf mjög hissa á því að ég heiti Þuríður Elín og býst við einhverri rosalega góðri ástæðu.
Ertu alltaf kölluð Ebba?

Já, ég er eiginlega alltaf kölluð Ebba, sjaldan Þuríður, nema þegar ég er skömmuð. Fólk er alltaf mjög hissa á því að ég heiti Þuríður Elín og býst við einhverri rosalega góðri ástæðu. En konan sem ég er nefnd í höfuðið á, sem var besta vinkona mömmu, hét Þuríður Elín og var kölluð Ebba. Ætli foreldrar mínir hafi ekki bara ákveðið að halda í þá hefð.

Hvernig fer saman að vera leikkona og kennari?

Það fer mjög vel saman. Ég er mest í uppistandi eins og er og vinnan er mest um kvöld og helgar sem passar mjög vel. Svo koma oft upp uppákomur í vinnunni sem ég get notað í uppistandinu. Þeim finnst til dæmis mjög sérstakt hvað ég er svipuð þeim að mörgu leyti. Bý hjá mömmu og hún græjar stundum nesti fyrir mig. Alveg eins og foreldar þeirra.

Hvað mun gerast á jóla(uppi)stundinni?

Á jóla(uppi)stundinni verður mikil hátíðarstemning. Ég ætla í mitt fínasta púss, segja nokkra brandara sem flestir eru glænýir og koma fólki í jólaskap með hlátri og gleði.

Af hverju uppistand?

Ég fór alveg óvart í uppistand. Starfsfólkið á Kaffi Laugalæk, þar sem ég hafði sýnt einleikinn minn, vantaði skemmtiatriði í starfsmannapartí og eigandinn bað mig að vera með smá uppistand. Ég hafði aldrei ætlað að verða uppistandari og gat eiginlega ekki ímyndað mér neitt verra. Þetta er eins og að vera með einhverja sjálfseyðingarhvöt... að fara upp á svið og biðja fólk að hlæja að sér. Ég hef alltaf haft gaman af því að segja fólki sögur og því er þetta form sem ég hef mjög gaman af. En þetta verður að einhverri fíkn og maður fær ekki nóg. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri.

Þjáistu af jólastressi?

Ótrúlegt en satt; þrátt fyrir að ég sé bæði með ofsa- og heilsukvíða hefur jólastress aldrei hrjáð mig. Ég er alltaf mjög róleg þegar kemur að jólunum. Mér finnst þau bara falleg og notaleg.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín?

Mér finnst mjög skemmtilegt að eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Ég og vinkona mín Gunnhildur, sem ég er að skrifa með sjónvarpsþætti, höfum síðustu ár farið út að borða á Þorláksmessu og fengið okkur kokteila en síðasta ár ákváðum við að lengja daginn með því að fá okkur skötu í hádeginu, fara heim til hennar og henda fötunum beint í þvott og skella okkur svo að gefa kakó fyrir Rauða krossinn og fara síðan út að borða. Það er orðin hefð hjá mér og nokkrum vinkonum mínum að hittast á annan í jólum og horfa á Lemonade með Beyoncé, núna verður það í þriðja sinn. Svo setjum við á pásu og förum í djúpar samræður um þýðingu hvers lags og myndbands.