[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ármann Harri Þorvaldsson fæddist á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík 15.12. 1968. Hann átti fyrst heima í Safamýrinni en fjölskyldan flutti í Vesturberg í Breiðholti er Ármann var fjögurra ára og þar ólst hann upp.

Ármann Harri Þorvaldsson fæddist á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík 15.12. 1968. Hann átti fyrst heima í Safamýrinni en fjölskyldan flutti í Vesturberg í Breiðholti er Ármann var fjögurra ára og þar ólst hann upp. Hann æfði og keppti í knattspyrnu með yngri flokkum Leiknis og var í handbolta í glímufélaginu Ármanni.

Ármann gekk í Hólabrekkuskóla og útskrifaðist þaðan 1984, lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1989, lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1992, stundaði nám í Boston 1992-94 og útskrifaðist úr Boston University með MBA próf árið 1994.

Ármann starfaði hjá Kaupþingi, í Reykjavík 1994-2003, og í London 2003-2008. Hann var yfirmaður fjárfestingarbankasviðs til 2005 og forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander 2005-2008.

Ármann var sjálfstætt starfandi og var fjárfestir 2008-2015. Hann var yfirmaður Fyrirtækjaráðgjafar Virðingar 2015-2017 og er forstjóri Kviku frá 2017.

Ármann hefur skrifað þrjár bækur en tvær þeirra voru á ensku og íslensku. Þetta eru bækurnar Saga Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur; Ævintýraeyjan (Frozen Assets) og Krossgötur (Crossroads), ævisaga Gunnars Björgvinssonar.

Ármann var í sigurliði FB í Gettu betur árið 1987. Hann varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik í meistaraflokki í badminton 1988 og 1989 og var landsliðsmaður í badminton 1987-90. Hann var Fulbright-styrkhafi og var sæmdur Beta Gamma Sigma (honor society) fyrir námsárangur við Boston University.

Ármann hefur keppt í ólympískri þríþraut á undanförnum árum: „Ég hef keppt í þríþraut á Miami átta sinnum í röð, keppti einu sinni á heimsmeistaramótinu í þríþraut í London og tók þátt í þríþrautarkeppninni í San Francisco (Escape from Alcatraz) þar sem maður syndir, hjólar og hleypur. Ætli sé ekki kominn um áratugur frá því ég fór að leika golf af einhverri alvöru hjá GR og loks reynum við að fara með fjölskyldu og eða vinum í eina til tvær skíðaferðir á ári.“

Þú fórst í bankabransann með BA-próf í sagnfræði að vopni. Er það ekki svolítið sérstakt?

„Nei, nei. Sagnfræðin er alltaf skemmtileg og ég hafði reyndar í huga að gerast framhaldsskólakennari í sögu. Síðan fékk ég áhuga á fjármálum og fjárfestingum og lauk því MBA-prófi í Boston árið 1994. Menn geta haft og fengið áhuga á mismunandi sviðum því heimurinn er flókinn og hann skiptist ekki niður í háskóladeildir.“

Fjölskylda

Eiginkona Ármanns er Þórdís Edwald, f. 6.5. 1966, kennari við Langholtsskóla. Foreldrar hennar: Erling Edwald, f. 16.1. 1921, d. 13.5. 2011, lyfsölustjóri ríkisins í Reykjavík, og Jóhanna H. Edwald, f. 29.8. 1935, ritari í Reykjavík.

Börn Ármanns og Þórdísar eru Bjarki Ármannsson, f. 20.2. 1991, íslenskukennari í Reykjavík, en kona hans er Solveig Óskarsdóttir háskólanemi; Margrét Ármannsdóttir, f. 10.2. 1995, háskólanemi í Reykjavík, og Atli Ármannsson, f. 22.4. 2005, nemi í Reykjavík.

Systkini Ármanns eru Jónas Þór Þorvaldsson, f. 10.4. 1967, verkfræðingur í Reykjavík; Böðvar Bjarki Þorvaldsson, f. 5.5. 197, smiður og byggingafræðingur í Reykjavík, og Ingibjörg Elín Þorvaldsdóttir, f. 24.9. 1978, skrifstofukona í Reykjavík.

Foreldrar Ármanns eru Þorvaldur Jónasson, f. 10.4. 1942, kennari, og k.h., Margrét Ármannsdóttir, f. 27.6. 1942, kennari. Þau eru búsett í Reykjavík.