Kópavogur Konur í Mæðrastyrksnefnd hampa mjólkurvörum.
Kópavogur Konur í Mæðrastyrksnefnd hampa mjólkurvörum.
Mjólkursamsalan leggur fyrir þessi jól, líkt og undanfarin ár, hjálparstofnunum lið.

Mjólkursamsalan leggur fyrir þessi jól, líkt og undanfarin ár, hjálparstofnunum lið. Að þessu sinni var tveimur milljónum króna í formi vöruúttektar úthlutað til fimm góðgerðarfélaga og skiptist styrkurinn á milli Fjölskylduhjálpar Íslands og mæðrastyrksnefnda í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri.

Til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs berast að jafnaði að jafnaði 160-170 umsóknir fyrir jólin og á bak við hverja umsókn er 3-6 manna fjölskylda. „Við gerum allt hvað við getum til að vísa engum frá og erum þakklát fyrirtækjum eins og Mjólkursamsölunni, sem og einstaklingum sem leggja okkur, og þar með fjölskyldum í neyð, lið með bæði vöru- og fjárstyrkjum,“ segir í fréttatilkynningu, haft eftir Ragnheiði Sveinsdóttur, gjaldkera nefndarinnar.

„Hjálparstofnanir eru starfræktar allan ársins hring en þörfin er hvað mest í kringum jólahátíðina og vill MS með þessum styrkjum leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á þeim einstaklingum sem leita sér aðstoðar í formi matarúthlutunar fyrir jólin,“ segir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri Mjólkursamsölunnar. Hún segir MS styðja góðgerðarmál af ýmsu tagi árið um kring enda sé samfélagsleg ábyrgð hluti af stefnu fyrirtækisins. Þetta séu til að mynda íþrótta-, heilbrigðis-, menningar og velferðarmál og von MS sé að styrkirnir nýtist sem best í hverju tilfelli fyrir sig. sbs@mbl.is